30/10/2024

Fádæma vel heppnað Strandhögg

Tíunda landsbyggðarráðstefna Sagnfræðingafélags Íslands og Félags þjóðfræðinga á Íslandi var haldin á Ströndum fyrir réttri viku í samstarfi við Þjóðfræðistofu sem sá um skipulagningu og ReykjavíkurAkademíuna. Yfirskrift ferðarinnar var Strandhögg 2009 og var mæting góð, en um 60 fræðimenn, rithöfundar og listafólk mætti á Strandir til að upplifa herlegheitin með heimamönnum. Ráðstefnan heppnaðist fádæma vel, en hún var með óvenjulegu sniði því fyrirlestrar voru margir haldnir utandyra á vettvangi sem þeir tengdust með einum eða öðrum hætti. Mörg erindin fjölluðu um sögu og menningu Stranda.

Einnig var málþing haldið á Hólmavík, auk þess sem gestir heimsóttu ferðaþjóna og skoðuðu menningarstofnanir á Ströndum. Um leiðsögn í rútuferðinni um sýsluna sáu Matthías Lýðsson, Magnús Rafnsson og Rakel Valgeirsdóttir. Úr hópi heimamanna sem fluttu erindi á Strandhögginu voru þjóðfræðingarnir Jón Jónsson, Kristinn H.M. Schram og Rakel Valgeirsdóttir og sagnfræðingurinn Magnús Rafnsson,

Á hátíðarkvöldverði í Djúpavík var frumkvöðlar að sameiginlegum landsbyggðarráðstefnum félaga sagnfræðinga og þjóðfræðinga heiðraðir, en fyrsta ráðstefnan var haldin á Ísafirði fyrir 10 árum. Undirbúningsnefndin fyrir fyrstu ráðstefnuna var öll á staðnum, sagnfræðingurinn Sigurður Gylfi Magnússon sem m.a. hefur skrifað um bræður á Ströndum, Strandamaðurinn og þjóðfræðingurinn Jón Jónsson og ísfirsku valkyrjurnar og sagnfræðingarnir Jóna Símonía Bjarnadóttir og Andrea Harðardóttir.  

 

Ljósm. af þátttakendum á Gjögurbryggju þar sem Sigurður Gylfi hélt magnað erindi um persónulegar heimildir