Í júní efna Evrópustofa og Bíó Paradís til evrópskrar kvikmyndahátíðar hringinn í kringum landið. Hólmavík verður heimsótt þriðjudaginn 3. júní og í boði verða þrjár bíósýningar í Félagsheimilinu og er ókeypis aðgangur að þeim öllum. Tilgangurinn er fyrst og fremst að kynna og breiða út evrópska menningu. Það er óhætt að segja að áætlanir um hringferðina hafi vakið athygli en blaðamaður breska dagblaðsins The Guardian mun slást í för og fjalla um hátíðina. Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, segir samstarfið við Evrópustofu og áhersluna á hágæða evrópskar myndir hafa verið afar farsælt. ,,Evrópskir kvikmyndagerðarmenn eru fremstir meðal jafningja og það er okkur því sönn ánægja að beina kastljósinu að evrópskri kvikmyndagerð og menningu og færa hana til landsbyggðarinnar. Bíó Paradís kom sér nýverið upp fullkomnum stafrænum sýningarbúnaði sem við munum nýta í hringferðina – sýningargæðin verða því í hæsta gæðaflokki.“
Myndirnar sem sýndar verða á Hólmavík:
Kl. 16:00 – Antboy ( talsett á íslensku) – Leikstjóri: Ask Hasselbach
Hinn 12 ára gamli Palli er bitinn af maur og öðlast við það ofurhetjukrafta. Með hjálp vinar síns lærir hann að beita kröftum sínum en eins og í sannri ofurhetjumynd líður ekki á löngu þar til illmennið Flóin stígur fram á sjónarsviðið og hefst þá barátta góðs og ills fyrir alvöru. Myndin var valin besta barna- og unglingamyndin á hinni rómuðu Robert verðlaunahátíð í Danmörku árið 2014 og einnig tilnefnd sem besta barnamyndin á kvikmyndahátíðinni í Tallin. Myndin er dönsk að uppruna og hentar fimm ára og eldri. Hún er talsett á íslensku.
Kl. 18:00 – Málmhaus – Leikstjóri: Ragnar Bragason
Æska Heru Karlsdóttur er áhyggjulaus í sveitinni þar til harmleikur dynur yfir. Eldri bróðir hennar deyr af slysförum og Hera kennir sjálfri sér um dauða hans. Í sorginni finnur hún sáluhjáp í þungarokki og dreymir um að verða rokkstjarna. Málmhaus hlaut ekki færri en átta verðlaun á Edduhátíðinni í ár og hefur verið tilnefnd sem besta norræna myndin á Gautaborgarhátíðinni 2014 og besta alþjóðlega myndin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara. Já, Ísland er hluti af Evrópu og hafa fjölmargar íslenskar kvikmyndir á borð við Málmhaus notið stuðnings í gegnum styrktaráætlun Evrópusambandsins fyrir kvikmyndaiðnaðinn, MEDIA, sem Ísland hefur aðgang að í gegnum EES.
Kl. 20:00 – Broken Circle Breakdown– Leikstjóri: Felix van Groening
Elise og Didier verða ástfangin við fyrstu sýn: hún á húðflúrsstofu og hann spilar á banjó í blágresisbandi en þau deila saman miklum áhuga á amerískri tónlist og menningu. Óvænt ógæfa leikur þau grátt og reynir mjög á samband litlu fjölskyldunnar. Myndin hefur farið sigurför um Evrópu og meðal annars hlotið Lux verðlaunin 2013, áhorfendaverðlaun Berlinale og verðlaun sem besta evrópska myndin hjá Europa Cinemas Label. Myndin er belgísk að uppruna og er sýnd með íslenskum texta.
Hægt er að fylgjast með ferðalaginu á Facebooksíðu hátíðarinnar: https://www.facebook.com/EvropskKvikmyndahatid.