30/10/2024

Erilsamt hjá lögreglu

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að í liðinni viku var talsverður erill hjá lögreglu. Sex umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu, m.a. bílvelta á Dynjandisheiði í svonefndum Trölladölum þar sem erlendir ferðamenn á jeppa fóru út af, sluppu ómeiddir en bíllinn talinn ónýtur. Þá var tilkynnt um tvo minni háttar árekstra á Ísafirði og bílveltu innanbæjar á Flateyri þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur. Þá var tilkynnt um óhapp í Kjálkafirði þar sem nýlegri fólksbifreið var ekið um þjóðveg 60, þar sem vegurinn er mjög holóttur og sprungu út loftpúðar í hægri framhurð. Það mun vera mjög sjaldgæft að loftpúðar springi út, þegar ekið er um mjög holótta vegi.

Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir og kærðir fyrir of hraðan akstur, annar við Ísafjörð og hinn í nágreni við Hólmavík. Þá var tilkynnt að ekið hafi verið á hæðarslá við Bolungarvíkurgöngin, Hnífsdalsmegin, þar ók flutningabíll með háan gám á slána. Málið telst upplýst.

Lögregla hefur áminnt þó nokkuð marga eigendur/umráðamenn ökutækja vegna ólöglegra stöðu bifreiða í þéttbýlisstöðunum í umdæminu sl. daga.