22/12/2024

Erill hjá vestfirskum lögreglumönnum

Í fréttatilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum um verkefni liðinnar viku kemur fram að talsverður erill var hjá lögreglunni á Vestfjörðum og tengdist það að mestu veðurfari og aðstoð við borgarana vegna þess. Á fimmtudegi og föstudegi var nokkuð um aðstoðarbeiðnir og urðu skemmdir talsverðar í einstaka tilfellum. Eins og fram hefur komið fauk skúta af hafnarsvæðinu við Sundahöfn á Ísafirði og eyðilagðist. Þá fauk hjólhýsi á hvolf við bæinn Haukaberg á Barðaströnd á fimmtudeginum og kyrrstæð bifreið fauk á grindverk í Hnífsdal á föstudeginum. Mikið var um tilkynningar um lausar járnplötur og fiskikör sem fuku um. 

Sex umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni. Aðfaranótt föstudagsins var bifreið ekið á hús í Hnífsdal og skemmdist hún talsvert og einhverjar skemmdir urðu á klæðningu hússins. Ökumaðurinn var handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur. Á föstudeginum fauk bifreið út af veginum um Hvílftarströnd í Önundarfirði. Bifreiðin valt og skemmdist talsvert en ökumaður slapp án teljandi meiðsla. Á  sunnudeginum var bifreið ekið á grjót á veginum um Súðavíkurhlíð. Bifreiðin skemmdist nokkuð og þurti að flytja hana með kranabifreið af vettvangi. Engan sakaði við þetta óhapp. Til viðbótar þeim ökumanni, sem ók á húsið í Hnífsdal, voru tveir aðrir ökumenn teknir fyrir meinta ölvun við akstur um helgina, báðir á norðanverðum Vestfjörðum.

Lögreglumenn frá Hólmavík höfðu afskipti af mönnum sem voru á leið um Steingrímsfjarðarheiði um hádegisbil á fimmtudaginn. Við leit í bifreiðinni fannst lítilræði af kannbisefnum og viðurkenndu þeir sem í bifreiðinni voru að eiga efnin.