22/12/2024

Enn um raforkuverð

Iðnaðarráðherra hefur ekki tjáð sig um raforkuverðsmáliðValgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra sagði í umræðum á Alþingi fyrir áramót að hún væri alltaf jafn hamingjusöm með nýju raforkulögin og að þau myndu tryggja meiri jöfnun í raforkukerfinu og að raforkukostnaður myndi hækka örlítið á sumum svæðum en það teldist „í einhverjum hundrað köllum".

Eins og fram hefur komið í fréttum mun raforkuverð hækka nokkuð á Vestfjörðum í kjölfar gildistöku nýrra raforkulaga. Mest verður hækkunin í dreifbýli á Vestfjörðum og í kauptúnum með færri en 200 íbúa, eða um rúm 40%.

Þegar frumvarp til laga um ný raforkulög var til umræðu á alþingi, þá töldu nokkrir þingmenn ástæðu til að óttast afleiðingar laganna og töldu að rétt hefði verið að vinna að því að fá undanþágu frá tilskipun Evrópusambandsins sem kallaði á nýja lagasetningu.

Í umræðum um það mál sagði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra m.a.

„Hvað varðar það að fá undanþágu frá þessari tilskipun var það reynt áður en fulltrúar borgarinnar fóru að velta þeim hlutum fyrir sér. Reynt hafði verið af hálfu ráðuneytisins að fá undanþágu. Svörin voru þau að ef það væri miklum erfiðleikum undirorpið að innleiða þessa tilskipun væri hægt að hugsa sér að skoða það frekar. Niðurstaða Orkustofnunar á þeim tíma varð að ekki væri um það að ræða og ég er alveg sammála henni. Þótt þetta sé mikil vinna er þetta ekki einhver óvinnandi vegur. Í rauninni finnst mér hafa verið skemmtilegt að fást við þetta mál og ég er alltaf jafnsannfærð um að það eigi fullan rétt á sér og það verði til þess að bæta raforkukerfi okkar. Nú verða hlutirnir miklu meira uppi á borðinu. Við aðgreinum rekstrarþætti og ég leyfi mér að segja að mjög margt í þessu kerfi hefur verið dálítið ósýnilegt og kannski ekki alveg skilvirkt fram til þessa. Það er heldur ekkert launungarmál að það voru ekkert óskaplega margir aðdáendur frumvarpsins hér á landi þegar það kom fyrst fram. Það er eiginlega alveg stórmerkilegt að það skuli þó hafa náð að verða að lögum og vera komið á þann stað í stjórnsýslunni sem raun ber vitni. Ég er þó alltaf jafn hamingjusöm með frumvarpið og lögin og ég held að það hljóti að segja sína sögu."

Þess má geta að samkvæmt fréttum þá fengu Möltubúar undanþágu frá svipaðri lagasetningu.

Iðnaðarráðherra er í fríi á Flórida og hefur ekki enn tjáð sig um málið og ekki hefur heldur náðst í starfandi iðnaðaráherra um málið, en Halldór Ásgrímsson gegnir störfum Valgerðar í fjarveru hennar.

Á meðan stendur á svörum, þurfa íbúar Stranda að bíða enn um stund eftir að sjá hvort það sé sannanlegur áhugi fyrir því hjá stjórnvöldum að stuðla að því enn frekar að byggð leggist af á svæðinu.