22/12/2024

Enginn „sársaukafullur“ niðurskurður

Samkvæmt drögum að fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir árið 2007 verður einhver niðurskurður og sparnaður í þjónustu og í starfsmannahaldi í sveitarfélaginu. Aðspurð um þetta segir Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri að uppi séu ýmsar hugmyndir um niðurskurð á útgjöldum: "Já, það eru uppi ýmsar hugmyndir en engin þeirra er "sársaukafull" fyrir sveitarfélagið. Sem dæmi, að ekki er ætlunin að fækka starfsmönnum með uppsögnum heldur verður ekki ráðið í stöður sem losna. Þá er ætlunin að minnka sumaropnun sundlaugar þar sem hún var illa nýtt fyrir hádegi á virkum dögum."

Þá segir Ásdís að samkvæmt fjárhagsáætlun sé ekki gert ráð fyrir að teknar verði nýjar ákvarðanir um fjárfestingar eða framkvæmdir á árinu 2007, enda hafi mikið verið fjárfest á árunum 2003-5. Ýmislegt sem þegar hefur verið ákveðið og samþykkt af sveitarstjórn verður þó eftir sem áður að veruleika: "Það sem sveitarstjórn hefur þegar samþykkt stendur, eins og t.d. kaupin á gamla Kaupfélagshúsinu. Það er einfaldlega ekki verið að bæta neinu nýju við," segir Ásdís.

Væntanlega má því einnig reikna með framkvæmdum við önnur verkefni sem byrjað hefur verið á og hafa verið samþykkt, svo sem boltavöll í Brandskjólunum og fjarnámsver á Hólmavík, en síðastliðið haust var frestað að koma slíku á laggirnar til haustsins 2007.