22/12/2024

Engar fjárfestingar eða nýframkvæmdir

Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í gær var lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun ársins 2007 ásamt þriggja ára áætlun. Ekki er gert fyrir neinum fjárfestingum á árinu né áætlað að fara í nýjar framkvæmdir að svo stöddu. Gert er ráð fyrir að heildartekjur sveitarfélagsins verði tæpar 277 milljónir. Gert er ráð fyrir hagnaði frá rekstri upp á rúmar 2 milljónir þegar aðalsjóður og B-hluta sjóðir eru lagðir saman í samstæðureikningi. Veltufé frá rekstri er áætlað 24 milljónir, en afskriftir tæpar 17 milljónir, breyting á lífeyrisskuldbindingum rúm milljón og verðbætur tæpar 4 milljónir. 

Í fundargerðinni kemur fram að launakostnaður er stærsti útgjaldapósturinn hjá Strandabyggð eða rúm 55% af heildartekjum. Sé horft á einstaka málaflokka þá eru áætluð mestu útgjöldin til fræðslu- og uppeldismála eða rúm 55% ,en þar næst eru íþrótta- og æskulýðsmál með rúm 16% af heildarútgjöldum. 

Áætlununum var á fundinum vísað til seinni umræðu sem verður eftir viku.