22/12/2024

Endurbætur á Blævardalsvirkjun

BlævaBjarki Einarsson og Indriði Einar Reynisson í fjölmiðlahópi Þemavikunnar í Grunnskólanum á Hólmavík tóku þessa frétt saman af tilefni þemavikunnar. Fyrir rúmum mánuði var byrjað á gagngerum endurbótum á Blævardalsárvirkjun. Um þetta verk sáu starfsmenn Orkubúsins á Hólmavík, smiðir frá Grundarás, bræðurnir Kristján og Jósteinn Guðmundssynir, málari frá Bolungarvík og einnig þrír menn sem eru framleiðendur vélanna frá Þýskalandi.

Endurnýjuð voru stíflumannvirki og líka skipt um allan vélbúnað og rafbúnað. Kostnaður var ekki kominn fram, en Orkubú Vestfjarða borgar allan kostnað á þessari framkvæmd.

Ingimundur Jóhannsson eða Mundi Jó, eins og hann er kallaður, sagði í viðtali að þetta væri ekki svo erfitt þar sem það komu svo margir menn að þessu verki. Rafveita Snæfella- og Nauteyrahreppa lét reisa þessa stöð árið 1972 og hún var tekin í notkun 1975. Hún er staðsett í Blævardal milli Hamars og Hallsstaða, niður við sjó á Langadalsströndinni í Ísafjarðardjúpi.

Mundi Jó segist ekki hafa lent í verulegum lífsháska við störf sín hjá Orkubúinu, en það var annar maður sem fékk í sig 6000 volt. Hann fékk stórt gat á puttann og lærið og það kom gat á vettlinginn og vinnugallann. Það var þannig að ónafngreindur maður var að klifra upp í staur þar sem línan hafði slitnað og allt var rafmagnslaust en það var heimastöð í gangi á bænum þar rétt hjá.

Starfsmenn Orkubús Hólmavíkur í dag eru átta talsins. Það sem þeir í Orkubúinu hafa verið að bralla síðustu daga er frágangur á skoðunarskýrslum síðasta sumars og að setja heimtaug í sundlaug á Drangsnesi. Annars er bara búið að vinna í Blævadalsárvirkjun. Munda finnst mjög gaman að vinna í Orkubúinu á Hólmavík.

Að lokum var Mundi Jó spurður um útvarp þemavikunnar FM 100,1. Hann segist hafa hlustað á FM 100,1 eftir að loftnetið var lagað hjá þeim. Einnig segir hann að þetta gangi sæmilega en auglýsingalestur gangi misjafnlega. Hann segist ekki eiga neinn uppáhaldsþátt í útvarpinu.