22/12/2024

Elsti Íslendingurinn 107 ára

Á vefnum www.langlifi.net kemur fram að Torfhildur Torfadóttir á Ísafirði er 107 ára í dag. Hún er elsti núlifandi Íslendingurinn, fædd í Asparvík í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu árið 1904, yngst ellefu systkina og ólst upp í Selárdal í Steingrímsfirði. Nokkur systkina Torfhildar náðu háum aldri, Ásgeir varð 100 ára, Eymundur 96 ára og Guðbjörg 91 árs. Eftir  fermingu  var  Torfhildur  í vinnumennsku  í Króksfirði og Reykhólasveit  í Austur-Barðastrandarsýslu  en flutti síðan til Ísafjarðar og giftist Einari Jóelssyni sjómanni. Einar lést árið 1981. Þau eignuðust fimm börn og eru þrjú þeirra á lífi, Torfi 61 árs, Sigurbjörn 69 ára og Kristín 78 ára.

Torfhildur hefur verið á dvalarheimilinu Hlíf undanfarin ár. Að sögn Torfa Einarssonar, sonar Torfhildar, hefur hún daglega fótavist, gengur um ganga dvalarheimilisins og virðist vera líkamlega hraust. Heyrn og sjón eru farin að daprast og minnið að bregðast henni. ”Það sem hefur hjálpað henni er rólyndi og ágætt skap,” segir Torfi.

Ekki er vitað um neina íbúa Vestfjarða sem náð hafa hærri aldri en Torfhildur.

Langlífustu Vestfirðingarnir. Á litlu myndinni eru tveir elstu núlifandi Íslendingarnir – www.langlifi.net. Texti fréttarinnar er eftir Jónas Ragnarsson.