Erlendar fréttir
Elsta æðarkolla Danmerkur sem náði 28 ára aldri, lét lífið í olíubrák á Stórabeltinu sem er sundið á milli Fjóns og Sjálands í Danmörku að sögn Zoologisk Museum. Kollan var á kræklingaveiðum í sundinu og kafaði í olíubrák sem lá við yfirborðið í leit sinni að æti. Kollan náði að komast að landi á strönd nálægt Kalundborg þar sem veiðimenn fundu hana og bundu enda á kvalir hennar. Að sögn Palle Graubrek skógarumsjónarmanns þá hafði olían þrengt sér inn í fjaðrirnar sem þýðir að þær geta ekki haldið hitanum að líkamanum og fuglinn króknar því úr kulda. Veiðimennirnir ákváðu því að framkvæma líknardráp á þessum aldursforseta danskra æðarfugla.
Palle Graubrek vill þó meina að þrátt fyrir allt þá hafi æðarkollan brotist úr egginu undir mikilli heillastjörnu og segir hana hafa á 28 ára langri ævi tekist að sneiða hjá öllum hættum sem steðja að fuglalífi í Danmörku, olíubrákum, rándýrum og veiðimönnum, þar til núna að lukkan leit af henni eitt augnablik sem varð henni að aldurtila.