22/12/2024

Ekki réttur fálki

Þessi fálki er líklega ekki sá sami og vonast var eftirÓlafur Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem annaðist fálkann sem Sævar Benediktsson kom til hjálpar s.l. haust, hefur skoðað myndirnar af fálkanum sem náðist á mynd á Hólmavík í gær og getgátur voru um á strandir.saudfjarsetur.is að væri fálki Sævars sem ratað hefði heim. Ólafur segir að ekki sé um sama fuglinn að ræða, þar sem líklega sé um kvenfugl að ræða en hólmvíski fálkinn er karfugl.

„Þetta er örugglega ekki ungfálkinn frá í haust," segir Ólafur. „Þessi fugl er með gular klær og er líklega kvenfugl. Hólmvíski fálkinn er með bláar klær og er karlfugl."

„Þessi fugl er a.m.k. á öðrum vetri en hinn var á fyrsta vetri. Þessi er líka með stærra merki en fálkinn sem við slepptum í Reykjavík fékk. Mér þykir líklegast að hér sé á ferðinni fálkakerling úr Þingeyjarsýslum en þar hafa flestir fálkar verið merktir, og að hún sé a.m.k. tveggja ára gömul. Þó er það ekki útilokað að þetta sé Strandafugl."

Ólafur segir að talsvert sé um fálkahreiður á Ströndum og að fálkastofninn á hverju svæði haldist oft í hendur við rjúpnaslóðir. Þar sem mikið sé af rjúpu, þar sé einnig talsvert um fálka.

Hólmvíski karfuglinnAðspurður segir hann að vel geti verið að hólmvíski fálkinn hans Sævars komi heim aftur. „Við þekkjum eitt skemmtilegt dæmi frá Skagaströnd, en við merktum vængbrotinn fugl sem kom þaðan og hann fannst þar aftur þremur árum síðar. Að vísu dauður."

„Við fengum eina endurheimtu af Bölunum á Ströndum síðastliðið sumar en það var tveggja ára gamall kvenfugl úr Mývatnssveit sem lenti fyrir bíl og dó," sagði Ólafur Nielsen að lokum.

Um það bil 1000 fálkar hafa verið merktir á Íslandi undanfarin ár og þeir dreifa sér um allt land, en eins og fyrr segir hefur mest af merkingunum farið fram í Þingeyjarsýslum.