22/12/2024

Ekki lögð til tillaga um þrífösun rafmagns á Ströndum

Orkubú Vestfjarða á HólmavíkÞað vekur athygli í skýrslu Vestfjarðanefndarinnar að Strandir eru ekki nefndar til sögunnar þegar fjallað er um þrífösun rafmagns á Vestfjarðakjálkanum. Í kafla um aukið öryggi í raforkumálum er algerlega horft framhjá því að Strandir séu hluti af Vestfjörðum og eingöngu nefnt að iðnaðarráðuneyti skuli beita sér fyrir því að þrífösun rafmagns verði komið á í sveitum við Djúp og á Barðaströnd. Á Ströndum er eingöngu þrífasa rafmagn á þéttbýlisstöðunum þremur, Borðeyri, Hólmavík og Drangsnesi, og kostur er á því á milli Hólmavíkur og Drangsness. Á öllu svæðinu frá Borðeyri til Hólmavíkur og Bjarnarfirði og Árneshreppi er ekki kostur á þriggja fasa straumi og ekki lagt til við viðeigandi ráðuneyti af skýrsluhöfundum að því verði komið á líkt og á öðrum svæðum á Vestfjörðum.

Nokkur órói er á Ströndum vegna innihalds skýrslunnar og jafnvel álitið að nokkur verkefni til atvinnuuppbyggingar sem lögð voru til af hálfu Strandamanna á svæðinu hafi nefndin beinlínis ákveðið að færa til annarra byggðasvæða á Vestfjarðakjálkanum. Þar má nefna styrkingu sýslumannsembættisins og aðgerðir í heilbrigðis- og öldrunarmálum ásamt öðrum tillögum. Það þykja jafnframt einkennileg vinnubrögð nefndarinnar að ekki skuli hafa verið fundað með fulltrúum atvinnulífsins í héraðinu líkt og gert var t.d. á Ísafirði. Heimamenn spyrja sig þeirrar spurningar hvort Strandir séu hluti Vestfjarða að öllu leyti eða eingöngu þegar öðrum Vestfirðingum hentar.

Kafla skýrslunnar um aukið öryggi í raforkumál um er að finna hér að neðan:

"2.3 Aukið öryggi í raforkumálum
Nefndin leggur til að iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti feli Landsneti að útbúa sérstaka áætlun fyrir Vestfirði þar sem settar verði fram tillögur til að draga úr tíðni straumrofa á Vestfjörðum, s.s. með styrkingu núverandi lína, lagningu strengja o.fl. Meðal þess sem skoðað verði er að leggja háspennustrengi um jarðgöng. Áætlunin verði afhent iðnaðar- og viðskiptaráðherra eigi síðar en 1. ágúst nk. og hann kynni hana í ríkisstjórn og fyrir heimamönnum. Jafnframt beinir nefndin því til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins að beita sér fyrir því að þrífösun rafmagns verði komið á í sveitum við Djúp og á Barðaströnd."