Í gær birtist hér frétt um borgarísjaka á þvælingi við Grímsey á Steingrímsfirði, en þar fjallaði fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is meðal annars fjálglega um hversu mörg höfuð jakinn hefði. Nú hefur hins vegar komið í ljós að þessi fyrrverandi þríhöfði er alls ekki með þrjú höfuð heldur fjögur. Þetta sá Jón Halldórsson Strandapóstur er hann átti leið um Strandir í gær.
Jón segir að hann hafi veitt þessu athygli þegar hann var kominn að Gálmaströnd og á Broddadalsá við Kollafjörð hafi það síðan komið endanlega í ljós að jakinn er fjórhöfða ferlíki. Jón sagði jafnframt í samtali við strandir.saudfjarsetur.is að jakinn sé hrikalega stór.
Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is er því ekki viss um það lengur hvort kalla eigi jakann Fjórhöfða eða Stórhöfða.