22/12/2024

Eins dauði er annars brauð

Aðsend grein: Sigurður Atlason
Sigurður AtlasonUndanfarna mánuði þá hef ég verið sárhneykslaður vegna ákvörðunar Fjórðungssambands Vestfjarða að henda vinnuskjalinu um stóriðjulausa Vestfirði langt út í hafsauga án þess að hafa lagt í verkefnið þá vinnu og fjármuni líkt og hefur verið gert undanfarið varðandi mengandi stóriðju. En sem betur fer þá vitkast maður með tímanum, því eftir að hafa blásið út við vini og kunningja hvað eftir annað (sem hefur orsakað að margir þeirra taka orðið á sig krók í stað þess að mæta mannskrattanum sem getur um fátt annað talað nema olíuhreinsistöð og virðist hafa á heilanum) þá kviknaði ljósið og ég sá þau gríðarlegu tækifæri sem felast í olíuhreinsistöð, hvort sem hún er staðsett í Arnarfirði eða Dýrafirði. Síðan er ég eindreginn talsmaður þess að þessi eldspúandi, illa þefjandi og mengandi verksmiðja rísi sem allra fyrst á öðrum hvorum staðnum. Og helst á þeim báðum.

 

    Málið er það að við Strandamenn getum hagnast svo gríðarlega á þessari olíuhreinsistöð. Við erum mátulega langt í burtu, hinum megin á kjálkanum þar sem nánast engin hætta er á að olíuslys þarna vestra hafi einhver áhrif á lífríki sjávar hér austanmegin. Svo er það nánast jafn sjaldgæft að hér ríki vestanátt og að risaskjaldbaka komi að landi. Risaskjaldbaka kom síðast að landi við Steingrímsfjörð árið 1963 og elstu menn muna vart hvenær síðast var hér vestanátt. Suðvestanáttin er nokkuð ríkjandi, þegar ekki er blessað lognið, en sem betur fer er ekkert um mengandi stóriðju hjá vinum okkar í Dölum handan við fjöllin í suðvestri. Norðaustanáttin er líka nokkuð algeng og ber iðulega með sér hressandi blæ úr norðurhöfum, en að vísu einnig þykka þoku á stundum, sem er þó talsvert heilnæmara þykkni en nágrannar okkar fyrir vestan geta átt von á ef vonir margra ráðamanna þar ganga eftir. Þannig að við hér á Ströndum ættum að fagna því að geta í framtíðinni verið eina svæðið á Vestfjarðakjálkanum sem getur boðið upp á hreina og tæra náttúru. Raunar ættum við að róa út í fyrrnefnt hafsauga og slæða upp þau góðu áform Fjórðungssambands Vestfjarða um stóriðjulausa Vestfirði, segja okkur úr tengslum við þau í leiðinni, þurrka áformin og dusta svo af þeim rykið um leið og við endurskírum þau Stóriðjulausar Strandir og Reyklausir Reykhólar. Sjáið þið líka hvað þau heiti stuðla mikið betur og verða um leið markaðssvænni.
    Því er ekki að leyna að ég hef mestar áhyggjur af öllu því fólki þar vestra sem enn hefur ekki látið glepjast af áformum Bubbanna, sem ég kýs að nefna svo í þessum pistli. Því meðan Bubbi byggir skýjaborgir í hugum „stórmenna“ þá virðist mér frekar lítið hugsað til þeirra dugmiklu aðila sem raunverulega yrkja gæði Vestfjarða, af jafn miklum krafti og móð og heimild er til. Mér verður hugsað til dugnaðarfólks á við það sem hefur afrekað að gera sjóstangaveiði að kraftmikilli útgerð, fyrirtækisins blómlega á Tálknafirði sem hefur tekist að fá stórt svæði í nágrenni fjarðarins vottað tandurhreint og auka þar með verðmæti afurða sinna. Ekki síður verður mér hugsað til alls fólksins í Dýrafirði sem hafa barist eins og víkingar fyrir því að fornhetjan Gísli Súrsson leiði þau inn á heimsmarkað víkingaaðdáenda sem fyrirfinnast um heim allan. Ég á satt að segja erfitt að sjá fyrir mér og er til efs að Gísli gamli virki sérstaklega vel innan um um strompa og stálvirki þó sumum kunni að finnast þau fögur sem norðurljós að næturþeli. En fegurð er afstæð og málið allt lyktar af vafasömu brölti í skjóli næturs.
    Ekki hefur verið gjört heyrinkunnugt hverjir það eru sem standa fyrir bröltinu né hvenær þeir verði tilbúnir að láta dagsljósið skína á sig og skríða úr hellunum. Feluleikurinn minnir mig satt að segja á tröllasögur því eins og flestir vita þá döguðu síðustu tröllin uppi á Vestfjörðum eftir að hafa flúið ofríki mannanna af meginlandinu. Eitt af öðru urðu þau að steinum; þau fundu sér hvergi skjól, hvorki fyrir hávaðasömum kirkjuklukkum sem fór ósegjanlega í taugarnar á þeim, né geislum sólarinnar sem lengst af hefur skinið bjart á menn og málleysingja á Vestfjörðum. Það er engu líkara en þau sitji í launsátri og það komi brátt í ljós að þau séu hreint ekki dauð, heldur bíði færis á að birtast aftur, taka á sig tröllslega mynd úr klettum og skorum og fela sig fyrir sólinni um aldur og ævi í svörtu skýi jarðgullsins gegn geislum sólarinnar.
    Eða minnir þetta mig á álfasögu þar sem fögur álfkona, hulið flagð, hefur vakið svo sterkan hug Bubba til sín að öll skynsemi brestur og ógleðin tekur við? Hættir að sjá sólina fyrir flagðinu og lætur ástina, sem getur jú tekið á sig ýmsar myndir, teyma sig í ógöngur eftir að honum hefur verið talin trú um að gull, gersemar og eilíf fegurð bíði sín handan næsta leitis. Fjársjóðurinn mikli sem leynist í hvarfi er oft glópagull sem mörgum hefnist fyrir að snerta og satt að segja vona ég nú að Bubba og nöfnum hans hljóti ekki af varanlegur skaði af nálægð þeirra við það né félagsskap hulinna flagða eða hefnigjarnra trölla. Það vekur bara áhyggjur mína að það er svo margt sem er óafturkræft. Sérstaklega í raunveruleikanum.
    Hvað má manni ekki annars vera sama? Það gengur hvort eð er flest í dag út á að græða sem mest og mikið á sem skemmstum tíma. Hvaða aðferðir eru notaðar skiptir síðan minnst máli. Reynsla, hefðir eða samfélagsmynstur og gerðir skipta engu máli því allt er til sölu á markaðnum í dag og þeir sem tala mest og hafa hæst ná mestum árangri. Þannig hef ég upplifað hlutina undanfarið. Svo er ágætt að hafa aðgang að huldububbum sem hafa aðgang að digrum sjóðum sem koma einhversstaðar frá. Málið er bara að ég treysti þessum Bubbum ekkert voðalega mikið. Sérstaklega í ljósi þess að þeir hafa engra hagsmuna að gæta nema sjóðanna sinna. Trúir því einhver að þeir ætli sér í hreinni góðmennsku að fjármagna risaframkvæmdir til þess að íbúum á ákveðnum svæðum fjölgi og byggðin geti blómgast? Ég held þeim sé nákvæmlega skítsama um það og ætli sér fyrst og síðast að ávaxta pund sitt sem mest og á sem skemmstum tíma. Í jafn viðkvæmum málum og mengandi stóriðju er síðan gerð tilraun til að fegra allt frá toppi til táar, sannfæra ráðamenn um ágæti sitt og starfsemi sína og gera þá sem hafa vara á sér og velja að halda vörð um umhverfi sitt vafasama og helst kjánalega. Svo ég tali nú ekki um að mála þá barnalega og þar af leiðandi vafasama í meira lagi.
    Að byggja risastóra olíuhreinsistöð er verk fyrir fullorðna Bubba og börnin skulu bara vera úti að leika á meðan sprenglærðir verkfræðingar og gírugir viðskiptamenn leggja á ráðin. Stjórnvöld skulu síðan með góðu eða illu leggja vegi yfir og undir fjöll, firði og fyrnindi vegna þess að það er verið að byggja stóriðju en ekki endilega vegna samfélagsskyldunnar að stjórnvöld verji fjármunum til þess. Í mínum huga þá er þetta takmarkalaus uppgjöf og sýnir svart á hvítu að of margir íbúar svæðisins eru um það bil að gefast upp á bjargræðinu.
    En heyr! Það er ekki öll nótt úti enn þó ákveðið verði að ráðast í þessar framkvæmdir. Strandir verða áfram sú náttúruperla eins og hún hefur verið og íbúar hennar munu halda vörð um hana. Vonandi og að öllum líkindum um alla eilífð. Tækifæri framtíðarinnar felast í gæðum náttúrunnar og verður dýrmætari með hverjum degi sem líður. Einn daginn munu Bubbarnir sjálfir átta sig á því og leggja sitt af mörkum til að verja hana og styrkja. Það þarf bara að hafa þolinmæði og átta sig á því að náttúran, fegurð hennar og gæði, eru ekkert að fara frá okkur.

Allavega ekki upp á sitt einsdæmi.

Sigurður Atlason