22/12/2024

Einbreiða slitlagið breikkað

Nokkuð hefur verið rætt um einbreitt bundið slitlag í Hrútafirði og Bitrufirði á Ströndum og fæst er það fallegt sem um þessa vegi er sagt. Þeir eru taldir slysagildra og og för myndast gjarnan í það þar sem allir aka í sömu hjólförum. Erfitt þykir að mæta bílum á þessum svæðum og nokkur óhöpp hafa orðið þegar kantur gefur sig undan þungum bíl. Ekki er óalgengt að þeir sem eru óvanir slíkum vegum víki illa og séu mjög óöruggir. Hryllingssögur um jeppa með hjólhýsi eða fellhýsi í eftirdragi sem þora ekki út fyrir slitlagskantinn sín megin þegar þeir mæta öðrum bílum eru óteljandi hér um slóðir. Nú stendur þetta til bóta á næstu árum því í haust á að hefjast handa við lagfæringar á þessum leiðindaköflum.

Ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is hafði heyrt síðastliðið vor að til stæði að hefja þessar viðgerðir á þessu ári og í sömu átt bentu stikur í vegkantinum. Því sendi vefurinn fyrirspurn á Vegagerðina um stöðu mála við viðgerðirnar og fengust bæði skýr og skjót svör. Magnús V. Jóhannsson svæðisstjóri í Borgarnesi staðfestir að vinna við breikkun einbreiðra slitlaga í Hrútafirði fari af stað nú í haust. Unnið verði að breikkun undirbyggingar á hluta kaflans, en nauðsynlegt sé að láta slíkt standa nokkurn tíma áður slitlagið sjálft verði breikkað. Breiðara slitlag verði því lagt á þennan kafla næsta sumar.

Við Ljótunnarstaði í Hrútafirði – ljósm. Jón Jónsson