11/10/2024

Einar, lundinn og Grímsey heimsfræg í Noregi

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og lundaveiðar hans án veiðikorts í Grímsey á Steingrímsfirði eru á forsíðu norska blaðsins Fiskaren í dag og heilmikla grein um Minister på ulovleg fuglejakt er síðan að finna á síðu 3. Virðist norsku blaðamönnunum nokkuð skemmt yfir málinu. Það hefur undanfarið verið stefna Strandamanna að gera Grímsey að heimsfrægri náttúruperlu vegna þess ótrúlega fjölda lunda sem þar er að finna og svo virðist sem nú sé lag að gera eyjuna alla vega heimsfræga í Noregi, þótt það sé með öðrum hætti en lagt var upp með.

Reyndar er sú iðja að veiða lunda í háf ekki mjög gamalgróin á Ströndum. Strandamenn gerðu fram eftir öllu miklu meira af því að taka kofu (sem er lundaunginn og kölluð pysja í Vestmannaeyjum). Kofuna sækja Strandamenn í holuna, drepa hana og matreiða. Kofa er herramannsmatur, rétt eins og vel matreiddur lundi, en ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is efast stórlega um að allir bændur á Ströndum sem taki kofu brúki veiðikort við drápið.

Lundi er ekki veiddur í Noregi, eftir því sem skilja má af greininni, en aðra útgáfu af henni er að finna á netútgáfunni www.fiskaren.no. Í þessari gömlu frétt hér á strandir.saudfjarsetur.is má finna allmargar myndir af lunda í Grímsey.

Af forsíðu Fiskaren