Við smalamennskur í Bæjarhreppi um síðustu helgi bar nokkuð á að dýrbitið fé kæmi af fjalli. Georg Jón Jónsson á Kjörseyri fékk illa dýrbitið lamb, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Það var ekkert við það að gera en að lóga því sagði Georg. Hann segist ekki fara til fjalla án þess að vera tófu var og væri það ekkert síður niður undir byggð. Georg sagðist vita að mikil vinna væri lögð í þetta af hálfu hreppsins, en þrátt fyrir það þá væri ástandið alls ekki nógu gott, eins og raun bæri vitni.
Ragnar Pálmason á Kollsá fékk af fjalli um helgina eina mjög illa farna á eftir dýrbít og eins var með lamb vestan frá Sólheimum sem kom niður að Kollsá. Að sögn Ragnars þá felldi hann ánna fljótlega því svo var af henni dregið að hún átti sér ekki viðreisnar von, allt hold farið af öðrum kjálkanum svo sá í ber beinin.
Ragnar sem er oddviti Bæjarhrepps sagði bæði mikla vinnu og fjármunum varið til minka og tófuleitar í Bæjarhreppi á ári hverju. Taldi hann nokkuð vel að málum staði hjá hreppnum í þessu sambandi, en eins og svo oft þá má eflaust gera betur. Ragnar sagði að sér væri ekki kunnugt um hvernig þessum málum væri háttað hjá nærliggjandi sveitafélögum, en ljóst mætti vera að allir yrðu að leggjast á eitt ef árangur ætti að nást við að halda tófunni í lámarki.
Ragnar sagði það vera samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga að sporna við offjölgun bæði minka og tófu, en því miður þá hefði ríkið dregið lappirnar. Hann segir ríkið oft standa illa við þær endurgreiðslur sem því bæri að greiða samkvæmt eigin reglum, en þar segir: Ríkissjóður endurgreiðir allt að 50% verðlauna fyrir löglega unnin dýr svo fremi að þau fari ekki fram úr eftirfarandi viðmiðunartölum: Fullorðnir refir 7.000 kr og yrðlingar 1600 kr. Ríkið greiðir hvorki tímavinnu eða ferðakostnaður við tófuleit, einungis eru greidd verðlaun fyrir unnin dýr.
Haft var samband við Hannes Hilmarsson minka og tófubana Bæjarhrepps. Hann sagði að það sem af væri þessu ári hefði hann veitt um 90 tófur alls, þar af væru um 30 yrðlingar úr 9 grenjum sem unnin voru á liðnu sumri. Hann sagði það alveg greinilegt þrátt fyrir mikla veiði, að þessum kvikindum færi fjölgandi ár frá ári.