05/05/2024

Dufl rak á land í Árneshreppi

Í fyrradag fannst dufl sem rekið hafði á fjöru í Akurvík í landi Reykjanes í Árneshreppi, rétt norðan við Gjögurflugvöll. Ekki var vitað hverslags dufl var þarna á ferðinni, en á fréttavefnum www.litlihjalli.it.is kemur fram að líklega hafi verið um einhverslags rannsóknardufl að ræða, gult að lit, um 2,70 m að lengd og rafmagnskaplar úr öðrum endanum og í tengi í kúlulaga hlutanum.

Varðskipið Ægir sótti síðan duflið í dag og komu fjórir menn í land á gúmmibáti frá skipinu í Akurvík og tóku rafhlöður úr duflinu og tóku síðan duflið með sér. Stýrimaður á varðskipinu sagði að það ætti undantekningarlaust að tilkynna reka af þessu tagi til að menn geti metið og ákveðið hvað gera skuli. Gott var í sjóinn og áttu varðskipsmenn gott með að athafna sig, en varðskipið lónaði fyrir utan á meðan.

Ljósm. Jón G. Guðjónsson