22/12/2024

Dreifnámið á Hólmavík kynnt á súpufundi

645-dreifnam-hurra

Dreifnámið á Hólmavík verður kynnt á næsta súpufundi í Pakkhúsinu á Café Riis á Hólmavík, en hann verður haldinn fimmtudaginn 5. desember og hefst kl. 12:05. Dreifnámið fór af stað í haust með stuðningi frá ríkinu og í samvinnu Strandabyggðar og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Í vetur er boðið upp á fyrsta árið í framhaldsnámi, en næsta áfangar fyrir tvö fyrstu árin í boði. Umsjónarmaður með dreifnáminu á Hólmavík er Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir og sér hún um kynninguna á fimmtudaginn.

Súpufundir eru með því sniði að meðan gestir gæða sér á dýrindis súpu er framsaga um fyrirtæki, stofnun, félag eða verkefni sem tengjast atvinnulífi, menningu, menntun og mannlífi á Ströndum. Á eftir framsögu eru síðan umræður og fundi lýkur jafnan áður en klukkan verður eitt. Það er Þróunarsetrið á Hólmavík sem hefur frumkvæði að og umsjón með súpufundum í vetur og sjá Þorgeir Pálsson og Jón Jónsson um verkefnið.