Fjölmörg verk sem fyrirhuguð voru hjá Vegagerðinni í ár verða slegin af. Þetta kemur fram á fréttavefnum ruv.is og jafnframt að tekin verður ákvörðun um næstu mánaðamót í hvaða verk verður ráðist. Vegagerðinni eru áætlaðir 6-7 milljarðar króna til nýrra verka fyrir 2009, en þessi fjárhæð er umtalsvert lægri en áður var gert ráð fyrir. Það er því verkefni samgönguráðherra og Vegagerðarinnar þessa dagana að ákveða hvað verk þurfa að bíða betri tíma. Meðal verkefna í óvissu eru Norðfjarðargöng, Dýrafjarðargöng, Dettifossvegur, Vopnafjarðavegur og brú yfir Hornafjarðafljót, segir á ruv.is, og jafnframt er nokkuð ljóst að ráðist verður í ýmis mannfrek verk á suðvesturhorninu.
Af vegagerð á Ströndum er helst að frétta að fyrirhuguð var á árinu 2008 verkefni í vegagerð í Bjarnarfirði, ásamt nýrri brú yfir Bjarnarfjarðará sem fjármagn hefur verið til í síðan 2006. Þetta verkefni var ekki boðið út á síðasta ári eins og til stóð og óvíst hvað um það verður. Sama gildir líklega um fyrirhugað verkefni í vegagerð á Strandavegi milli Kolbeinsvíkurár og Djúpavíkur í Árneshreppi, en fyrirhugað er að leggja fjármagn í vegagerð á þeim kafla á árunum 2009-2010 samkvæmt gildandi Vegáætlun 2007-2010.
Síðasti hlutinn af veginum milli Drangsness og Hólmavíkur, milli Geirmundarstaða og Staðarár hefur ekki heldur verið boðinn út ennþá. Sú vegagerð var ein af sérstaklega skilgreindum flýtiframkvæmdum ríkisstjórnarinnar sem mótvægisaðgerð vegna niðurskurðar á þorskkvóta. Einnig er eftir að setja bundið slitlag á nýja veginn frá Geirmundarstöðum að Hálsgötugili við Bjarnarfjarðarháls, en það hlýtur að teljast sennilegt að þessari vegagerð verði lokið á árinu 2009.
Vegagerð um Arnkötludal er ekki lokið og vantar enn nokkuð á að kominn sé vegur alla leið niður á Djúpveg við Hrófá. Umferð verður ekki hleypt á veginn í vetur, eins og áður hafði verið stefnt að, en þó er nokkuð um að menn séu farnir að prufukeyra veginn með því að aka slóða fram að sumarbústað fyrst af stað Strandasýslu megin. Líklegt hlýtur að vera að þessu verkefni ljúki á tilsettum tíma og umferð verði á nýjan veg hleypt á 15. júlí með fyrri umferðinni af slitlagi eins og áætlað er.
Hafist var handa við að breikka einbreiða slitlagið í Bitrufirði á síðasta ári og er það verk komið vel af stað. Eftir er að breikka veginn frá Krossárdal og inn að Tunguá. Þetta verkefni er líklega talið sem viðhaldsverkefni hjá Vegagerðinni og fjármagn í slík verkefni var ekki skorið niður við fjárlagagerðina. Því hlýtur að mega búast við að haldið verði áfram með þetta verkefni og því lokið á árinu.