22/12/2024

Dorothee Lubecki hættir hjá AtVest í haust

Dorothee Lubecki (Dóra) hefur ákveðið að segja starfi sínu hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða lausu eftir 10 ára starf. Meginverkefni hennar hafa tengst ferðamálum og uppbyggingu ferðaþjónustu, nú síðast starfar hún sem klasastjóri í ferðaþjónustu og menningarklasa Vaxtarsamnings Vestfjarða. Dóru þekkja allir Strandamenn sem tengjast ferðamálum og reyndar margir aðrir, því áhugi hennar og dugnaður við að setja sig inn í mál er einstakur. Einnig hefur hún verið afskaplega dugleg við að heimsækja ferðaþjóna, spjalla við fólk á mannamáli á þeirra eigin forsendum og aðstoðað á allan hugsanlegan máta.

Dóra hefur upp á síðkastið stýrt tveim Evrópuverkefnum hjá félaginu auk þess að halda utan um verkefni er tengjast atvinnumálum kvenna. Í fréttatilkynningu frá AtVest eru Dóru þökkuð hennar störf hjá félaginu sem unnin hafa verið af dugnaði og ósérhlífni og henni óskað velfarnaðar í nýju starfi sem Menningarfulltrúi Suðurlands. Dóra lætur af störfum hjá félaginu um miðjan september næstkomandi.