30/10/2024

Dökka hliðin á Krumma

Í göngum ganga smalar stundum fram á afvelta kindur, þ.e. kindur sem lent hafa á hliðina eða alveg á bakið ofan í laut eða lægð og ná ekki að rétta sig við af sjálfsdáðun og drepast oftast eftir mislanga legu. Oft verður það þeim til bjargar að einhver góðviljaður gengur fram á þær og réttir þær við. Það gengur ekki alltaf  þrautalaust ef þær hafa legið lengi og orðnar mjög máttfarnar og ringlaðar. Gjarnan fara menn þá að geta sér til um það hve lengi kindin hefur legið og er þá oft reynt að meta lengd legutímans og þá er það stærð skítahrúgunnar sem oft er spáð í hve langan tíma hefur tekið að verða svona stór.

Nokkuð fræg er sagan þegar Húnvetningar gengu fram á mann liggjandi milli þúfna og voru allskiftar skoðanir um hve lengi hann hefði legið þarna og mönnum gekk illa að fá niðurstöðu í málið. Þá spurði Aðalbjörn Benediktsson ráðunautur þessarar spurningar sem smalar voru gjarnan spurðir að við líkar aðstæður: „Var mikill skítur við hann?“

Myndirnar sem þessum pistli fylgja eru af kind sem var svo óheppin að það var ekki velviljaður smali sem fyrstur fann hana, heldur hrafninn, sá þrjótur. Það var ekki mikill skítur við hana þessa, hún var sem sagt ekki búin að liggja lengi en samt var krummi búinn að gera gat inn í vömb á henni þannig að hún átti enga lífsvon. Það var komið gor í allt kviðarholið og einnig milli vefja í síðunni á henni en samt var hún bráðlifandi þegar hún fannst og eins og myndirnar sína þá vellur gorið út um gat á síðunni

Kannski er krummi vitur en miskunnsamur er hann ekki, frekar en svo margt annað í náttúrunni.