05/11/2024

Dagskrá um Stefán frá Hvítadal

Að Nýp á Skarðsströnd í Dalasýslu verður um næstu helgi dagskrá um skáldið Stefán frá Hvítadal. Eins og kunnugt er fæddist Stefán á Hólmavík og er talinn fyrsti innfæddi Hólmvíkingurinn, en ólst síðan upp í Kollafirði. Dagskráin verður laugardaginn 28. júlí og hefst kl. 15:00. Að verkefninu standa Penna sf og ReykjavíkurAkademían en á vegum þessara aðila voru einnig haldnir fyrirlestrar að Nýp sumarið 2006 um ævisögur frá Skarðsströnd og Breiðafirði.

Tveir fyrirlesarar munu fjalla um skáldskap Stefáns og lífsferil. Það eru þær Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og ritstjóri sem einkum mun fjalla um skáldskap Stefáns og Andrea Harðardóttir sagnfræðingur og kennari sem ræða mun um lífshlaup hans. Dagskráin mun standa í eina og hálfa til tvær klukkustundir og verða léttar veitingar að henni lokinni.

Dagskráin er studd af Menningarsjóði Vesturlands, Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur og af Bílabúð Benna. Stutt er að Nýp úr Strandabyggð, hvort sem farið er um Steinadalsheiði eða Tröllatunguheiði, og eru áhugamenn um skáldið hvattir til að skella sér á dagskrána.

 

Nýp á Skarðsströnd – Ljósm. Jón Jónsson