08/11/2024

Byrjað að undirbúa Spurningakeppnina

Nú er undirbúningur hafinn fyrir Spurningakeppni Strandamanna 2007. Það er að venju Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir keppninni, en þetta er í fimmta skipti sem hún fer fram. Keppt verður í Félagsheimilinu á Hólmavík sunnudagskvöldin 11. og 25. febrúar og 11. og 25. mars að öllu óbreyttu. Spyrill, dómari og spurningahöfundur er Arnar S. Jónsson frá Steinadal, en hann gegndi því hlutverki fyrstu tvö árin sem keppnin var haldin. Keppnin verður með svipuðu sniði og verið hefur, fyrir utan örlitlar áherslubreytingar sem ávallt fylgja nýjum spurningahöfundum. Byrjað er að taka á móti skráningum í netfangið saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is. Skráningarfrestur er til föstudagsins 2. febrúar.

Hólmadrangur vann Spurningakeppni Strandamanna árið 2006 og er því núverandi handhafi Viskubikarsins enn um sinn, en sigurvegarar í keppninni frá upphafi eru eftirfarandi:

2003 – Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík
2004 – Strandagaldur
2005 – Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík
2006 – Hólmadrangur