22/12/2024

Byggðasafn Strandamanna á Hólmavík

Grein eftir Sigmar B. Hauksson
Nú fer að styttast í að langþráður draumur margra okkar rætist og þá á ég við nýjan veg um Arnkötludal. Þetta er gríðarleg samgöngubót og þörf og hygg ég að í framtíðinni verði þetta þjóðleiðin frá Reykjavík, um Hólmavík og vestur á Ísafjörð. Þessa mikla samgöngubót mun skipta miklu máli fyrir ferðaþjónustuna við Steingrímsfjörð og mun án efa efla hana talsvert. Að mínu mati er Galdrasafnið á Hólmavík ein merkilegasta nýjungin í menningarlegri ferðaþjónustu á síðari árum.

Strandamenn og Húnvetningar hafa um árabil rekið sameiginlegt byggðasafn á Reykjum í Hrútafirði. Margir Strandamenn hafa gefið safninu ýmsa muni og eru ég og fjölskylda mín í þeim hópi. Satt best að segja finnst mér safnið hálf rislítið orðið og þess vegna tel ég að flytja eigi Byggðasafn Strandamanna til Hólmavíkur og reka það samhliða Galdrasafninu. Þessi hugleiðing er sprottin af þeirri staðreynd að, eins og áður sagði, þjóðleiðin frá Reykjavík til Hólmavíkur muni liggja um Arnkötludal.

Byggðasafn Strandamanna myndi efla ferðaþjónustuna á Ströndum talsvert. Satt best að segja finnst mér hálf dapurlegt hversu rislítið byggðasafnið er nú. Þess vegna hvet ég ykkur, ágætu frænkur, frændur og vinir og ekki síst brottflutta Strandamenn til að beita okkur fyrir því að glæsilegt Byggðasafn Strandamanna rísi á Hólmavík.

Sigmar B. Hauksson, Víðivöllum