08/10/2024

Bryggjuhátíð á Drangsnesi 21. júlí

Nú er undirbúningur vegna Bryggjuhátiðar að komast á gott skrið. Fyrsti fundur vegna hennar var haldinn 13. maí og var mjög vel mætt og þarf þá ekki að beita hinni margfrægu höfðatölureglu. Dagskráin verður með hefðbundnu sniði – stendur allan daginn og veðurguðirnir lofa alveg yndislegu veðri. Ljósmyndasýningin Mannlíf í Kaldrananeshreppi er einn af föstu punktum bryggjuhátíðar. Þar eru sýndar myndir af mannlífi og byggingum  í Kaldrananeshreppi áður fyrr. Hér með er auglýst eftir ljósmyndum.

Allar ljósmyndir eru vel þegnar og þess má geta að myndirnar þurfa ekki endilega að vera frá miðri síðustu öld til að teljast gamlar – aðstandendur Bryggjuhátíðar fagna því að fá myndir sem sýna okkur mannlíf og atvinnuhætti á síðari hluta aldarinnar. Merkið myndirnar vel eiganda og einnig hverjir og hvað er á myndunum og sendið þær til Jenný Jensdóttur á Drangsnesi.