22/12/2024

Broddavíkur- eða Hólmaneshreppur?

Dreift hefur verið málefnaskrá vegna atkvæðagreiðslu um sameiningu Hólmavíkur- og Broddaneshreppa sem fyrirhuguð er næsta laugardag. Þar koma fram helstu áherslur sameiningarnefndar sem Haraldur V.A. Jónsson, Eysteinn Gunnarsson, Ásdís Leifsdóttir, Sigurður Jónsson og Sigrún Magnúsdóttir skipuðu. Fram kemur m.a. að ef af sameiningu verður er ætlunin að leita eftir tillögum að nafni á sameinaða sveitarfélagið og kjósa á milli tillagna við sveitarstjórnarkosningar í vor.

Upplýsingar í bæklingnum eru fremur takmarkaðar, en vísað er í kynningarbækling sem sendur var út í október vegna sameiningarkosninga þá. Þó er nefnt að stefnt er að samvinnu við Bæjarhrepp í skólamálum og að eðlilegt sé að mati nefndarinnar að skólabörn úr Bitru sæki skóla á Borðeyri. Þá er nefndin sammála um að setja 5 milljónir í að mála og laga Broddanesskóla.

Fasteignagjöld munu vera þau sömu í þessum sveitarfélögum, en peningaleg staða þeirra er sögð ólík. Skuldir á hvern íbúa séu lægri í Broddaneshreppi og lausafjárstaða betri, en eignir á hvern íbúa í Hólmavíkurhreppi séu nokkuð hærri. Engar nákvæmar tölur koma þó fram í málefnaskránni. Í Broddaneshreppi eru 53 íbúar og 447 í Hólmavíkurhreppi, þannig að sameinaðir yrðu íbúarnir akkúrat 500.