13/10/2024

Breytingar á rútuferðum

Miklar breytingar verða á áætlanaferðum með rútum á Ströndum um áramótin, en fyrirtækið Sterna (Bílar og fólk ehf) sér áfram um ferðir. Lögð verður niður áætlun á leiðinni Staðarskáli – Hólmavík sem hefur verið ein ferð á föstudögum yfir vetrartímann. Seinasta ferðin verður 30. desember nk. Í staðinn verður áætlun milli Reykjavíkur og Hólmavíkur um Arnkötludal þrisvar sinnum í viku, á þriðjudögum, föstudögum og sunnudögum, frá Reykjavík til Hólmavíkur og sömu leið til baka. Farið verður frá Reykjavík á þriðjud. og föstudögum kl. 08:30 og sunnudögum kl. 13:00. Frá Hólmavík er farið kl. 12:30 á þriðjud. og föstudögum og kl. 17:00 á sunnudögum.


Samgöngur milli suðvesturhornsins og Vesturlands og Stranda batna þannig til muna yfir vetrartímann og er það fagnaðarefni. Um leið er ljóst að þjónustan er skert við íbúa á sunnanverðum Ströndum og þá sem notað hafa áætlunina við ferðalög milli Norðurlands og Stranda. Mikilvægt er fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum að úr því verði bætt með einhverju móti í sumarbyrjun, þannig að Vestfirðir verði áfram hluti af hringleið og gestir komist til og frá Norðurlandi á Strandir og síðan Vestfirði.

Þá minnkar þjónustan við Reykhóla, en ekki verða rútuferðir þangað frá áramótum. Um leið fækkar ferðum milli Króksfjarðarness, Búðardals og Reykjavíkur um eina í viku hverri, úr fjórum ferðum í þrjár.