Á vefnum www.litlihjalli.it.is kemur fram að breytingar hafa verið gerðar á póstnúmerum í Árneshreppi. Póstnúmerin 522 Kjörvogur og 523 Bær hafa verið lögð niður og verður póstáritun í öllum hreppnum nú 524 Árneshreppur, en áður stóð Norðurfjörður við það póstnúmer. Íbúar eiga ekki að verða
varir við neinar breytingar varðandi póstdreifingu af þessum völdum. Póstur kemur í Árneshrepp með áætlunarflugi á Gjögurflugvöll tvisvar í viku, en ekki er ljóst hvernig brugðist verður við varðandi póstinn ef hugmyndir Vegagerðarinnar um fækkun flugferða úr tveimur í eina á viku í fjóra mánuði yfir sumarið verða að veruleika.