22/12/2024

Brennt barn forðast eldinn …

Eldvarnadagur í Grunnskólanum á Hólmavík var í morgun. Þar fór fram brunaæfing og sannaðist þar að ekki er vanþörf á slíkum æfingum. Svo mikil hálka reyndist vera í brekkunni upp að skólanum að slökkviliðsbíllinn sem kom þar æðandi að, komst ekki upp brekkuna í fyrstu tilraun á meðan ímyndaður eldurinn logaði um glugga og göng. Hreppurinn mun ekki hafa efni á að sanda brekkuna, ef heimildir strandir.saudfjarsetur.is eru réttar, og eru gangandi vegfarendur þar í hættu alla daga sem hálka er, bæði börn og fullorðnir.

Rýming skólans gekk hins vegar vel á eldvarnaræfingunni, að því slepptu að bókavörður og nemendur í tónmennt heyrðu ekki vel í brunabjöllunni, auk þeirra sem voru í matreiðslutíma í kjallara. Þá fundu reykkafarar 2 börn sem fengin voru til að fela sig í húsinu.