22/11/2024

Breiðafjarðarfléttan ályktar um vegamál

Háskaleg beygja á StröndumBreiðafjarðarfléttan, samtök ferðaþjónustuaðila í báðum Barðastrandasýslum, Dölum og á Snæfellsnesi var stofnuð á síðasta ári. Samtökin vilja vekja athygli á samgöngumálum á svæðinu í kring um Breiðafjörð og hafa því sent frá sér eftirfarandi ályktun um aðgengi að ferðamannastöðum við Breiðafjörð, sem fylgir hér á eftir:

Vöxtur ferðaþjónustu á landsbyggðinni byggir á góðum samgöngum. Afkoma greinarinnar er háð fjölgun ferðamanna og lengingu ferðamannatímans. Til að forðast átroðning og eyðileggingu sem fylgir mikilli umferð um viðkvæm svæði er nauðsynlegt að ferðamenn dreifist um landið. Það er því mikilvægt að bæta aðgengi ferðamanna að "óþekktari" náttúruperlum landsins, en þær er til dæmis að finna á svæðinu umhverfis Breiðafjörð.

Áríðandi er að framkvæmdir, sem nú eru á vegaáætlun við norðanverðan Breiðafjörð, hefjist strax og einnig framkvæmdir við þá áfanga sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að hraða.

Auk þessara framkvæmda eru enn nokkrir vegir ófullnægjandi á svæði Breiðafjarðarfléttunnar og dregur það úr umferð ferðamanna um eftirsóknarverð svæði. Þetta á t.d. við um Laxárdalsheiði og hringinn um Snæfellsnes og inn í Dali. Ástæða þess síðarnefnda er að Skógarstrandarvegur er ekki með bundnu slitlagi og er með margar einbreiðar brýr. Nú sniðgengur ferðafólk þennan veg sem þó er með fegurri akstursleiðum á Íslandi. Afleiðing þessa er að Snæfellsnesið mun einangrast frá þjóðvegakerfi landsins. Það verður eyland í vegakerfinu með aðeins einni aðkomu, sem miðast við að öll umferð fari um Mýrarsýslu. Ferðamönnum um Snæfellsnes, Dali og Barðastrandasýslur fjölgar ekki meðan vegakerfið býður ekki upp á samfellt og gott aðgengi að náttúruperlum og sögustöðum.

Stór hluti ferðamanna sem heimsækir Barðastrandasýslur vill skoða Látrabjarg. Það er ein af þekktustu og fallegustu náttúruperlum á svæðinu norðan Breiðafjarðar, en að því er eindæma slæmt aðgengi. Vegurinn út á Látrabjarg er nánast ófær ruðningur. Þennan veg þarf nauðsynlega að endurbæta, það sama á við um veginn í Örlygshöfn.

Þrátt fyrir að vegakerfið umhverfis Breiðafjörð sé ófullnægjandi er markvisst unnið að því af hálfu Vegagerðarinnar að leggja niður ríkisstyrktar siglingar Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Það er algert forgangsatriði að styrkir vegna ferða Baldurs yfir Breiðafjörð verði ekki skertir.

Félagar í Breiðafjarðarfléttunni telja að til að efla ferðaþjónustu á Snæfellsnesi, í Dölum og norðan Breiðafjarðar þurfi að stórbæta aðgengi að náttúruperlum og sögustöðum við norðanverðan Breiðafjörð, í Dölum og á Snæfellsnesi. Því er mikilvægt að vegaframkvæmdum við norðanverðan Breiðafjörð verði hraðað, að vegirnir um Skógarströnd og Laxárdalsheiði verði endurbyggðir með bundnu slitlagi og að þjónusta Baldurs verði ekki skert. Um er að ræða nokkra stutta vegakafla.

Fullyrt er að kostnaður við þessa vegagerð sé margfalt minni en sá ávinningur sem næst með betri og öruggari samgöngum. Með betri  samgöngum verður ferðaþjónustan öflugri, atvinnutækifæri fjölbreyttari, byggðirnar styrkjast og heimamenn verða ánægðari.