22/11/2024

Brautargengiskonur í Strandabyggð styrktar

Ekki er hægt að sjá af fundargerðum Strandabyggðar að mikill áherslumunur sé milli meiri- og minnihluta, því oftar en ekki eru mál afgreidd samhljóða. Ágreiningur hefur þó verið um eitt mál á síðasta fundi sveitarstjórnar nú í vikunni eins og sést í fundargerð sem birt er hér á vefnum. Þar var samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur að styrkja fimm þátttakendur á Brautargengisnámskeiði um 15 þúsund krónur sem er helmingur námskeiðsgjalda. Námskeiðinu Brautargengi er ætlað að auka möguleika kvenna í atvinnulífinu.

Reyndar hefur þessi styrkur verið afgreiddur áður með sama atkvæðamun í sveitarstjórn, en umsækjandi þá var Impra. Að sögn Ásdísar Leifsdóttur var þá vegna misskilnings álitið að styrkurinn yrði nýttur til lækkunar á gjaldinu hjá hverjum þátttakanda. Þegar í ljós kom að svo var ekki var fallið frá fyrri samþykkt og málið aftur tekið til afgreiðslu og því þá hafnað. Nú sóttu hins vegar athafnakonurnar sjálfar um styrk sér til handa á móti námskeiðsgjöldum og var samþykkt að veita sömu fjárhæð og upphaflega var ákveðin eða 15 þúsund.