22/12/2024

Brandur á Bassastöðum í Út og suður

Guðbrandur Sverrisson, eða Brandur Bassi eins og hann er gjarnan kallaður á Ströndum, verður viðmælandi Gísla Einarssonar í fyrsta Út og suður þætti sumarsins. Eins og nærri má geta berst talið að veiðum, en Brandur er þekktur fyrir að skjóta mink og jafnvel að skjóta sig í fótinn í orðsins fyllstu merkingu. Þátturinn er á dagskrá á sunnudagskvöldið kemur, þann 1. maí klukkan átta.


Í þáttunum Út og suður flakkar Gísli vítt og breitt um landið og bregður upp svipmyndum af áhugaverðu fólki. Í þessum fyrsta þætti sumarsins heimsækir hann hjónin Hólmfríði Bjarnadóttur og Hilmar Örn Agnarsson organista í Skálholti sem fór úr pönkinu á pípuorgelið og sauðfjárbóndann og minkabanann Guðbrand Sverrisson á Bassastöðum á Ströndum. Eins verður litast aðeins um á Birtingu, hátíð ungs fólks á Akureyri. Þess má geta að Jón Jónsson á Kirkjubóli var viðmælandi Gísla í fyrsta þættinum sem sendur var út sumarið 2003. Eldri þættir eru nú fáanlegir á myndbandi og DVD mynddiski og þá er hægt að panta á vef Ríkisútvarpsins, www.ruv.is.