21/11/2024

Börnin í snjókomunni

Börnin gleðjast yfir snjókomunniVeðurguðirnir tóku upp á því að láta fenna yfir Strandir núna síðdegis. Börnin sem tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is átti leið hjá létu það ekki á sig fá, heldur klæddu sig í útigallana og fóru í vettvangsleiðangur um hafnarsvæðið á Hólmavík, sæl og ánægð yfir snjókomunni. Þau ráku augun í mikla fjársjóði skömmu síðar, bandspotta og marga aðra spennandi hluti sem gott er að eiga í handraðum þegar mikið liggur við. Það er nefnilega aldrei að vita hvenær ævintýrin gerast og maður þarf að handsama sjóræningja eða smyglara.

 

Veðurspáin fyrir Strandir til kl. 18:00 á morgun er á þessa leið: Fremur hæg breytileg átt og stöku él. Gengur í norðaustan 10-15 í kvöld með éljum. Kólnandi veður. Norðan 5-10 m/s seint á morgun, úrkomuminna og frost 6 til 12 stig.

En börnin kæra sig kollótt og halda áfram sínum leikjum. 

.