22/12/2024

Bolludagur, sprengidagur og öskudagur

Í dag er sprengidagur og eru menn sjálfsagt farnir að huga að saltkjötinu og baunasúpunni í kvöld, jafnvel þó þeir séu varla orðnir svangir aftur eftir bolluátið í gær. Á morgun er svo öskudagur og hefur ritstjórn haft spurnir af því að Öskudagsball verði haldið í félagsheimilinu á Hólmavík kl. 17:00. Þar mæta bæði börn og fullorðnir í grímubúningum og skemmta sér við að slá köttinn úr tunnunni. Venjulega reynist að vísu enginn köttur vera þar, heldur sælgæti sem bætist þá við það góðgæti sem börnin hafa safnað í fyrirtækjum um daginn með því að syngja og syngja og hætta ekki fyrr en þau eru leyst út með gjöfum.