23/12/2024

Björgunarsveitin Björg sótti kjörgögn í Árneshrepp

Vegurinn norður í Árneshrepp á Ströndum var ekki opnaður í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna á laugardaginn. Björgunarsveitin Björg á Drangsnesi var í staðinn beðin að sækja kjörgögn norður í Árneshrepp og koma þeim í hendurnar á lögreglunni á Hólmavík að loknum kjörfundi í Árnesi. Ekki var talið fært í Árneshrepp, en búið var að moka frá Árnesi til Djúpavíkur þannig að íbúar hreppsins komust á kjörstað. Fimm björgunarsveitarmenn á tveimum jeppum og með tvo vélsleða fóru frá Drangsnesi kl 16.00 og gekk ferðin sæmilega greiðlega.


 
 
Björgunarsveitin mætti Birni Torfasyni og Ingólfi Benediktssyni rétt norðan við Kúvíkur og var þar tekið á móti kjörkössunum um kl. 17:30 og þeim skilað í hendur lögreglunnar á Hólmavík rétt sunnan við Hrófberg kl. 19:30.

Veður var mjög hvasst á laugardag og gekk á með hviðum, en sæmilega bjart var mest alla leiðina norður. Á veginum voru nokkrar hindranir eins og meðfylgjandi myndir sýna. Frá Drangsnesi fóru Franklín Ævarsson formaður björgunarsveitarinnar og bílstjóri, Halldór Logi Friðgeirsson bílstjóri, Haraldur Ingólfsson sleðamaður, Magnús Ölver Ásbjörnsson sleðamaður og Óskar Torfason aðstoðar- og myndatökumaður. Ekki kom til þess að þyrfti að nota vélsleðana að þessu sinni.
 

0

bottom

frettamyndir/2010/580-atkv2.jpg

frettamyndir/2010/580-atkv4.jpg

frettamyndir/2010/580-atkv6.jpg

Ljósm. Óskar Torfason