22/11/2024

Björgunarhundar á Steingrímsfjarðarheiði

Skíma og AuðurÞað verður líf og fjör á Steingrímsfjarðarheiði dagana 8.-14. mars, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Hundar og menn á ferð og flugi, bílar, vélsleðar, snjótroðarar, surg í talstöðvum og sannkölluð björgunarsveitastemmning. Það er Björgunarhundasveit Íslands sem verður við æfingar á sex daga vetrarnámskeiði sveitarinnar sem haldið verður í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og á Steingrímsfjarðarheiði umrædda daga. Um þrjátíu leitarteymi (hundar og eigendur þeirra) allstaðar að af landinu verða við æfingar á heiðinni.


Markmið vetraræfingar af þessu tagi er að þjálfa og taka út björgunarhunda í snjóflóðaleit og björgun við vetraraðstæður. Af Vestfjörðum verða níu leitarteymi við æfingar á námskeiðinu, sex frá Ísafirði, tvö frá Patreksfirði og eitt úr Bolungarvík. Ísfirsku teymin eru meðlimir í Björgunarfélagi Ísafjarðar og fá þaðan aðstoð við þjálfunina. Teymin á Patreksfirði eru meðlimir í björgunarsveitinni Blakki á Patreksfirði. Meðlimir í Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hólmavík verða til aðstoðar á heiðinni með snjóbíl og mannskap.

Kæli- og frystivélafyrirtækið Kæliver í Reykjavík veitti á dögunum Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands 125 þúsund króna styrk til að standa straum af námskeiðskostnaði vegna vetrarnámskeiðsins.