Undanfarna daga hafa staðið yfir viðgerðir á veginum yfir Bjarnarfjarðarháls á þjóðvegi 643 og fjarlægðir úr honum stórir steinar og heilu björgin sem hafa undanfarin ár verið að færa sig upp úr jarðveginum í vegastæðinu. Vegurinn verður svo heflaður og bætt ofan á hann þykku lagi af efni úr Selá í Steingrímsfirði á næstu dögum. Einnig verður sett efni í veginn út Bjarnarfjörð áleiðis að Bjarnarfjarðarárbrú. Grjótin eru misjöfn að stærð og lögun eins og steinum er títt, en bjargið sem Magnús Steingrímsson frá Stað er að bagsa við að ná upp úr vegastæðinu hefði hæglega getað rúmað þrjá til fjóra vegaálfa, áður en það klofnaði í tvennt.