22/11/2024

Birkir Þór Stefánsson íþróttamaður Strandabyggðar

Birkir Þór Stefánsson úr Skíðafélagi Strandamanna var krýndur íþróttamaður Strandabyggðar í síðustu viku, en frá þessu var sagt í Svæðisútvarpi Vestfjarða og á vef RÚV. Birkir þykir mikill íþrótta- og keppnismaður sem hefur verið mjög hvetjandi fyrir aðra íþróttaiðkendur, ekki síst þá sem leggja stund á gönguskíði og óþreytandi að leiðbeina þeim sem eru að stiga sín fyrstu skref á skíðunum. Það er íþróttafélag lögreglumanna á Hólmavík sem stendur fyrir því framtaki að velja íþróttamann Strandabyggðar. Félagið leggur til bæði farandbikar og eignabikar og er tilnefningin gerð í samstarfi við sveitarfélagið.

Með þessu vill íþróttafélagið stuðla að aukinni hreyfingu og íþróttaiðkun sem hefur mikið fordæmisgildi, að sögn Hannesar Leifssonar lögregluvarðstjóra.

Þetta er annað árið sem tilnefndur er íþróttamaður ársins í Strandabyggð. Í fyrra hreppti titilinn ungur frjálsíþróttamaður, Guðjón Þórólfsson.