22/12/2024

Baldur og Gústi mætast aftur

Þeir Baldur Smári Ólafsson og Ágúst Einar Eysteinsson eigast við í annað sinnn nú um helgina, en fyrri viðureign þeirra í tippleik strandir.saudfjarsetur.is lyktaði með jafntefli, 7-7. Baráttan verður án efa hörð aftur um þessa helgi, en kapparnir eru ósammála um sex leiki á seðlinum sem samanstendur að mestu af leikjum úr 1. deildinni. Það verður spennandi að fylgjast með því hvor fer með sigur af hólmi því á þessu stigi leiksins skiptir hver einasti sigur gríðarlegu máli. Stóra spurningin er hvort einhver eigi séns í að ná Jóni Jónssyni sem situr enn sem fastast í fyrsta sæti og sýnir ekki á sér fararsnið. Hér fyrir neðan gefur að líta spár helgarinnar:

1. Bolton – West Ham

Baldur: Bæði þessi lið hafa verið að standa sig mjög vel í vetur og eru hlið við hlið í deildinni. En ég ætla að tippa á að Bolton vinni þennan leik. Tákn: 1.

Gústi: Stóri Sam og félagar eru fúlir eftir tapið gegn Newcastle á síðustu helgi og taka það út á West Ham. Tákn: 1.

+++

2. Portsmouth – Man City

Baldur: Það er spurning hvort Portsmouth ætli að reyna að bjarga sér frá falli. Ég held ekki. Tákn: 2.

Gústi: Harry Rednapp og lærisveinar hans virðast gjörsamlega lánlausir og eru líklega á leiðinni úr úrvalsdeildinni. Tákn: 2.

+++

3. Everton – Fulham

Baldur: Svakalega voru Fulham slappir gegn Arsenal á seinustu helgi. Ég held að það verði engin breyting þar á núna. Tákn: 1.

Gústi: Fulham voru flengdir á síðustu helgi gegn Arsenal en taka sig saman í andlitinu og ná jafntefli gegn Everton á útivelli. Tákn: X.

+++

4. Sunderland – Wigan

Baldur: Sunderland eru búnir að losa sig við stjórann sinn. En það á ekki eftir að breyta neinu fyrir þá. Þeir tapa enn einum leiknum. Tákn: 2.

Gústi: Wigan menn súrir eftir að hafa tapað óverðskuldað gegn mínum mönnum á mánudaginn og hakka Sunderland í sig. Tákn: 2.

+++

5. Charlton – Middlesbro

Baldur: Þessi leikur gæti farið hvernig sem er. En þar sem Charlton eru með eitt stk. Heimaklett í vörninni þá vinna þeir. Tákn: 1.

Gústi: Hemmi og félagar ná að merja sigur gegn brandinum. Tákn: 1.

+++

6. Reading – Watford

Baldur: Ég þori ekki öðru en að setja heimasigur á þennan leik. En Watford gætu átt eftir að verða erfiðir við að eiga. Þá sérstaklega Marlon King sem er markahæsti maður deildarinnar. Tákn: 1.

Gústi: Reading eru drullusterkir og taka Watford létt. Tákn: 1.

+++

7. Coventry – Sheff. Utd.

Baldur: Jæja nú ætla ég að taka stóran séns og tippa á Coventry. Mig grunar að Dennis Wise setji 2 mörk í þessum leik. Tákn: 1.

Gústi: Sorry Addi minn. Sheffield eru of sterkir fyrir Coventry. Tákn: 2.

+++

8. Brighton – Preston

Baldur: Preston vinnur léttan útisigur. Enda eru þeir með miklu sterkara lið. Tákn: 2.

Gústi: Preston að berjast um að komast í umspil en Brighton á leið niður um deild. Tákn: 2.

+++

9. Wolves – Cardiff

Baldur: Heimavöllurinn ræður úrslitum hérna. Tákn: 1.

Gústi: Úlfarnir vinna þennan leik á heimavelli. Tákn: 1.

+++

10. Sheff. Wed. – QPR

Baldur: Þetta verður leiðinlegur leikur sem endar 0-0. Tákn: X.

Gústi: QPR er flott nafn. Tákn: 2.

+++

11. Derby – Burnley

Baldur: Þrátt fyrir að Derby sé ömurlegt lið þá ætla ég að tippa á þá í þetta skiptið. Tákn: 1.

Gústi: Derby gerir jafntefli aðra helgina í röð. Tákn: X.

+++

12. Crewe – Southampton

Baldur: Talandi um leiðinlegt lið þá er Crewe gott dæmi um það. Alltaf í fallbaráttu og leiðindum. Tákn: 2.

Gústi: Crewe gera tilraun til þess að skeina sig og ná að merja jafntefli við Southampton. Tákn: X.

+++

13. Hull – Plymouth

Baldur: Ég skil ekki hvað ég hef mikla trú á Hull. Þeir tapa alltaf en samt tippa ég alltaf á þá. Tákn: 1.

Gústi: Plymouth eru sterkara lið og vinna þennan á útivelli. Tákn: 2.

+++

Baldur: Gústi var heppinn að ná jafntefli á seinustu helgi. En heppnin verður ekki með honum núna. Kveðja frá Ísafirði, Baldur.