05/11/2024

Bæklingur Vesturferða kominn út

Sumarbæklingur Vesturferða sem er ferðaskrifstofa á Ísafirði sem skipuleggur og selur ferðir um Vestfirði er kominn út. Ýmsar nýjungar eru í boði hjá Vesturferðum í ár og er fjallað betur um þær hér að neðan. Vesturferðir selja m.a. í ferðir í Grímsey á Steingrímsfirði með Sundhana, en þar verða áætlunarferðir í sumar á fimmtudögum og sunnudögum frá 15. júní – 10. ágúst. Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík er komin með nýja bæklinginn og geta ferðaþjónar sem vilja nálgast gripinn sótt bæklinga til hennar (info@holmavik.is – s. 451-3111) eða tekið eintök í rekka miðstöðvarinnar í söluskála N1 á Hólmavík. 

Nýjungar í ár eru helsta:

1. Kajakferðir í Heydal í Mjóafirði
Mjóifjörður er einstaklega vel fallinn til kajakróðurs. Veðursæld er mikil og útsýni fagurt út fjörðinn norður að Drangajökli. Í boði eru tvær ferðir, mismunandi að lengd.

Í þeirri styttri er róið frá Heydal inn að Hörgshlíðarpotti, þar sem menn liðka stirða vöðva, og aftur til baka. Í þeirri lengri er róið frá Látrum fram hjá selalátri. Oft sjást hvalir og fuglar eru á sveimi. Komið er í land og nesti snætt. Bíll fylgir alla leið. Ferðinni lýkur í Hörgshlíðarpotti.

2. Hestaferð í Heydal í Mjóafirði
Heydalur er kjarri vaxinn og eftir botni hans liðast Heydalsá með smáfossum og flúðum. Í dalnum eru nokkur stór gil sem setja svip á umhverfið. Í styttri ferðinni er farið um dalinn í 1-2 klst. Í þeirri lengri er riðið inn dalinn, upp á heiði að Ausuvatni, þar sem bragðgóður urriði bíður eftir að bíta á agnið.

3. Ljósmyndaferðir í Vigur
Tvisvar í viku í sumar gefst ferðamönnum kostur á að fara klukkan 10:00 að morgni út í Vigur. Heimferðin er samt ekki fyrr en um 16:30, svo ferðamönnum gefst rúmur tími til að taka myndir af lunda, teistu, kríu, æðarfugli og fjallahringnum. Kaffiveitingar seinnipartinn eru innifaldar, en gestir þurfa að taka hádegismatinn sinn sjálfir.

4. Sumarhús og sjóstöng
Vesturferðir hafa nú fengið til leigu sumarhús og íbúðir víða á Vestfjörðum. Íbúðirnar koma í öllum stærðum og gerðum og eru í Súðavík, Bíldudal og Tálknafirði. Íbúðirnar eru vel búnar og þær er hægt að leigja til lengri og skemmri tíma.

Þá er í boði sjóstangaveiði á litlum bátum. 3-5 geta farið í einu og ef siglt er innfjarða er ekki þörf á sérstökum skipstjórnarréttindum. Tilvalið til að ná sér í ódýra soðningu.

5. Pakkaferðir í Jökulfirði
Það þarf ekki að vera mikið mál aðskreppa yfir í Jökulfirði. Í Grunnavík og á Hesteyri er boðið upp á svefnpokagistingu í Sútarabúðum og Læknishúsinu. Þó gistingin sé ekki íburðarmikil er hún mjög notaleg og gestgjafarnir yndislegir. Eldunaraðstaða er á báðum stöðum.

Allt í kring eru skemmtilegar gönguleiðir. Frá Grunnavík er gaman að ganga yfir á Flæðareyri og upp í sögufræga kirkjuna. Frá Hesteyri er gaman að ganga yfir í Aðalvík, fara í kirkjugarðinn eða inn að hvalveiðistöðinni á Stekkeyri.

Nánari upplýsingar um allar þessar ferðir og líka gömlu góðu ferðirnar má nálgast á vefsíðunni, www.vesturferdir.is.