09/01/2025

Atvinnumál í Strandabyggð

Grein eftir Jón Jónsson og Viðar Guðmundsson
Einn mikilvægasti málaflokkur sem hver sveitarstjórn þarf að glíma við eru atvinnumál. Þar er í mörg horn að líta. Afar mikilvægt er að verja þau störf sem fyrir eru í sveitarfélaginu með ráðum og dáð. Það á bæði við um hefðbundnar atvinnugreinar sem eiga í vök að verjast á landsvísu, en einnig opinber störf. Eins þarf að huga að nýsköpun og þróunarverkefnum, nýjum tækifærum til atvinnusköpunar, sem oft byggjast á menntun og þekkingu. Slík störf eru oft vel launuð og gera yngri kynslóðinni, börnunum okkar, kleift að snúa aftur á Strandir eftir fjölbreytilegasta nám.

Hefðbundnar atvinnugreinar eru undirstaða byggðarinnar

Atvinnulíf í Strandabyggð er fjölbreytt, en þó eru hefðbundnar atvinnugreinar undirstaða byggðarinnar. Smábátasjómenn og sauðfjárbændur þurfa því að eiga öfluga stuðningsmenn í sveitarstjórn. Hún þarf að finna leiðir til að berjast fyrir bættum kjörum þeirra, verja hagsmuni þeirra og finna leiðir til að bæta aðstöðuna. Línuívilnun, aukinn byggðakvóti og hafnarbætur þurfa að vera baráttumál í slíku samfélagi og sveitarstjórn þarf einnig að beita sér með ráðum og dáð fyrir ýmsum hagsmunamálum bænda og íbúa í dreifbýlinu. Gera þarf dreifbýlið fjölskylduvænna og auðvelda þar með nýliðun í bændastétt, kynna hreinleika svæðins og gæði afurðanna og þar með greiða götu þeirra sem vilja selja gæðavöru beint frá býli. Eins þarf að þrýsta á úrbætur í vegagirðingum.

Margvísleg þjónusta setur einnig svip á atvinnulíf í Strandabyggð og afar mikilvægt að sveitarstjórn sýni þjónustufyrirtækjum stuðning og einnig þeim sem eru að vinna að úrvinnslu og matvælaframleiðslu. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein og hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á ímynd svæðisins og sjálfsmynd íbúanna. Mikilvægt er að hlúa vel að vaxtarsprotum á þessu sviði og styðja við tilraunir til að lengja annatímann í ferðaþjónustunni. Menning og fræði skipta líka sífellt meira máli í atvinnulífinu og í kringum öflugt skólastarf á svæðinu starfar margt gott fólk.

Framkvæmdir og viðhald

Verktakar og eigendur stærri bíla og vinnuvéla í Strandabyggð, þurfa einnig á skilningi og samstöðu sveitarstjórnar að halda, enda hafa þeir líklega komið verst út úr versnandi árferði á landsvísu af öllum íbúum svæðsins. Þrýsta þarf á hið opinbera að boðin verði út margvísleg smærri verkefni í Strandabyggð og nágrenni, svo sem í viðhaldi og vegagerð, sem heimamenn geta boðið í. Sveitarstjórn ætti að koma með tillögur að slíkum verkefnum við viðeigandi stofnanir og þrýsta á framkvæmd þeirra. Sveitarfélagið á einnig sjálft að hafa fyrir meginreglu að bjóða út verkefni sem það stendur fyrir. Iðnaðarmenn á svæðinu myndu einnig njóta góðs af því.

Afar brýnt er að finna lausnir á flöskuhálsum sem standa í vegi fyrir uppbyggingu og eflingu samfélagsins í Strandabyggð, eins og til dæmis skorti á íbúðarhúsnæði til leigu á Hólmavík. Eins er eðlilegt að sveitarstjórn beiti sér fyrir kortlagningu á atvinnulífinu til að finna út hvar möguleikar eru á frekari atvinnuuppbyggingu og hvaða þjónustu skortir. Benda þarf á möguleika og tækifæri sem víða leynast.

Stóraukum þrýsting á ríkisvaldið

Mikilvægt er að halda uppi miklum og stanslausum þrýstingi á ríkisvaldið og stofnanir á landsvísu varðandi atvinnumál. Þetta á einnig við um margvíslegar aðrar úrbætur sem koma sér vel fyrir þá atvinnustarfsemi sem stunduð er í sveitarfélaginu. Það er eðlilegt að sveitarstjórn taki afstöðu með atvinnulífinu á svæðinu, leggist á sveif með því og krefjist úrbóta í stóru og smáu. Í þessu samhengi þurfa sveitarstjórnarmenn að vera tilbúnir til að verja tíma í að skrifa áskoranir, erindi og greinargerðir, og einnig að eiga frumkvæði að og sitja fundi með ólíkum aðilum á landsvísu.

Halda þarf á lofti þeirri réttmætu kröfu að íbúar Strandabyggðar njóti sambærilegrar þjónustu og aðrir íbúar landsins fá frá hinu opinbera og verðlagningin á henni þarf líka að að vera sambærileg við það það sem gerist annars staðar. Umbætur þarf til dæmis í fjarskiptamálum, einnig þarf samgöngubætur og öfluga vegaþjónustu og hamra þarf á ríkisvaldinu að bæta úr þeim ójöfnuði sem Strandamenn þurfa að búa við á þessum sviðum. Með jöfnuði verða fyrirtæki á svæðinu samkeppnishæf og um leið verður Strandabyggð enn frekar samkeppnishæfur búsetukostur. Slíkum þrýstingi á ríkisvald og stofnanir þarf að beita á ólíkum vettvangi, bæði heima fyrir á vegum Strandabyggðar, en einnig í með öflugri samvinnu við önnur sveitarfélög á Ströndum og Vestfjörðum öllum.

Kappkostum að verja opinber störf og helst fjölga þeim

Afar mikilvægt er að verja opinber og hálfopinber störf á svæðinu. Sveitarstjórn þarf að vera tilbúin að verja ómældum tíma í að leita leiða til að þeim fækki ekki, í samvinnu við starfsmenn viðkomandi stofnana. Í sumum tilvikum er jafnvel hægt að snúa vörn í sókn og reyna að fjölga störfum, með því að flytja sérstök og afmörkuð verkefni á vegum ríkisvaldsins til útibúa og stofnana í Strandabyggð.

Sveitarstjórn þarf ávallt að vera tilbúin að styðja kröftuglega við bakið á útibúum fyrirtækja á landsvísu og þjónustumiðstöðvum á svæðinu. Það er mikilsvert að halda störfum í héraði, eins og til dæmis í tengslum við heilsugæslu, vegagerð, rafveitu og á sýsluskrifstofu, svo dæmi séu nefnd.

Jón Jónsson og Viðar Guðmundsson,
skipa 1. og 3. sæti á V-listanum í Strandabyggð