30/10/2024

Áttræðisafmæli Jóhanns Guðmundssonar

Jóhann Guðmundsson, rennismiður á Hólmavík, verður áttræður næstkomandi sunnudag. Í tilefni af því ætla börnin hans sjö að hafa opið hús með kaffiveitingum á Café Riis laugardaginn 3. janúar 2009 kl. 16.00-18.00. Þangað eru allir velkomnir, jafnt vinir sem aðrir vandamenn, Hólmvíkingar sem aðrir Strandamenn. Lagt hefur verið á ráðin um háleynilega tónleika sem stranglega er bannað að nefna við afmælisbarnið auk veislunnar og afmælisgjöf sem kemur að góðum notum á leynilegu tónleikunum, eins og sjá má með því að lesa meira.

Í tilefni af áttræðisafmælinu efna afkomendur Jóhanns líka til dálítilla tónleika í Hólmavíkurkirkju þennan sama laugardag, þann 3. janúar. Ætlunin er að flytja m.a. heimagerða texta sem hafa verið sungnir við ýmis tækifæri í fjölskyldunni – og svo hafa tónlistarmenn fjölskyldunnar líka æft hitt og þetta sem ætlað er að gleðja eyru afmælisbarnsins. Tónleikarnir hefjast klukkan 14.30 og eru allir velkomnir! Hins vegar er alveg snarbannað að nefna þessa tónleika við Jóhann sjálfan, þar sem þeir eru nokkurs konar afmælisgjöf sem á að koma honum á óvart! Upplýsingar um tónleikana eru hvergi birtar nema hér á strandir.saudfjarsetur.is. Jóhann notar ekki internetið og mun því ekki frétta af tónleikunum fyrirfram, svo fremi sem allir lesendur þessarar fréttar geta þagað yfir leyndarmáli í nokkra daga.

Ættingjar og vinir Jóhanns ætla að gefa honum ný heyrnartæki í afmælisgjöf. Reyndar þótti best að hann væri með tækin á áðurnefndum tónleikum þannig að þau hafa þegar verið keypt – og líkar afmælisbarninu vel við gripina (og nú er talað varlega nálægt honum)!

Þeir sem vilja vera með í þessari afmælisgjöf geta lagt upphæð að eigin vali inn á sérstakan reikning hjá Kaupþingi á Hólmavík, sem stofnaður hefur verið gagngert í þessum tilgangi. Reikingsnúmerið er 0316-13-905151 og kennitalan 040129-3759. Jóhann veit ekki af þessu uppátæki, en í kaffisamsætinu verður honum afhentur reikningurinn, ásamt með nöfnum gefenda (án upplýsinga um upphæðir einstakra framlaga).

Sem fyrr segir eru allir velkomnir í afmælisboðið og á tónleikana. Með allra bestu kveðjum, börnin 7.

Meðfylgjandi mynd tók af afmælisbarninu tók Jóhanna Stefánsdóttir (http://www.flickr.com/photos/sjonna).