30/10/2024

Atburðir á Ströndum um helgina

Eins og venjulega yfir sumarið er nóg að gerast á Ströndum. Um komandi helgi ber hæst heilmikið málþing sem haldið verður í Dalbæ við Ísafjarðardjúp. Þar verður fjallað um Spánverjavígin 1615 frá öllum mögulegum hliðum auk þess sem vettvangsferð verður farin um Snæfjallaströnd og kvöldvaka haldin á laugardagskvöldinu. Þar koma m.a. fram þeir Steindór Andersen og Elvar Logi Hannesson. Svangir ferðalangar og heimamenn ættu að kíkja við í Hótel Djúpavík þar sem gamaldags kaffiveitingar verða í boði. Síðan er hægt að bruna á Drangsnes og skella sér í Grímseyjarferð með Sundhana. Hér gefur að líta dagskrá helgarinnar:

Laugardagur 24. júní

Kl. 15:00 – Málþing um Spánverjavígin 1615, í Dalbæ við Ísafjarðardjúp. Fjöldi fyrirlesara, íslenskir sem erlendir, koma fram og fjalla um vígin frá öllum sjónarhornum og sýning um Spánverjavígin verður afhjúpuð. Dalbær er í aðeins klukkustundar fjarlægð frá Hólmavík.

Kl. 18:00 – Jónsmessukvöldvaka verður síðan haldið í Dalbæ. Hú hefst kl. 18:00 og þar koma m.a. fram þeir Steindór Andersen sem kveður rímur og Elvar Logi Hannesson leikari og flytur frumsaminn leikþátt byggðan á upplifun Jóns lærða á Spánverjavígunum. 

Sunnudagur 25. júní

Kl. 13:00 – Málþing kl. 13:00 um Spánverjavígin 1615 í Dalbæ við Ísafjarðardjúp. Fjöldi fyrirlesara, íslenskir sem erlendir, koma fram og fjalla um vígin frá öllum sjónarhornum og sýning um Spánverjavígin verður afhjúpuð. Kl. 10:00-12:30 verður farið í vettvangsskoðun með leiðsögn á slóðir víganna á og við Snæfjallaströnd þar sem mestu drápin fóru fram. 

Yfir daginn – Gómsætt og gamaldags kaffihlaðborð á Hótel Djúpavík. Uppl. í síma: 451-4037.

Kl. 14:00 – Sigling í Grímsey – áætlunarferð með Sundhana frá Drangsnesi. Boðið er upp á bátsferð í Grímsey frá Drangsnesi sem er einungis 10 mínútna sigling. Gengið er um eyjuna með leiðsögn þar sem bæði sögu eyjunnar og fuglalífi er sérstakur gaumur gefinn. Ef veður er gott er siglt hringinn í kringum eyjuna að göngu lokinni og færi dýft í sjó. Ferðin tekur í allt 3-4 tíma, verð kr. 3.500.-