22/12/2024

Áskorun um Arnkötludal

Sveitarstjórnir á norðanverðum Vestfjörðum (Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Súðavíkurhreppur) hafa sent frá sér sameiginlega áskorun þar sem skorað er á alþingi sem vinnur nú að vegaáætlun næstu 4 árin að flýta vegagerð um Arnkötludal þannig að hann verði tilbúinn 2008. Þetta kemur fram á vefnum www.bb.is í dag. Í samtali við bb.is segir Einar Pétursson bæjarstjóri í Bolungarvík það óásættanlegt að ekki verði farið fyrr í verkið en í fyrstu tillögum, allar forsendur séu til staðar til að hefjast handa.


Orðrétt segir í ályktuninni: „Sveitarstjórnir á norðanverðum Vestfjörðum leggja þunga áherslu á að tryggt verði nægilegt fjármagn til að vinna áfram við að ljúka framkvæmdum í Ísafjarðardjúpi ásamt því að stytta núverandi leið inn á þjóðveg númer eitt með vegi um Arnkötludal. Ljóst er að veruleg arðsemi er af styttingu leiðarinnar, sem yrði aðaltenging svæðisins við þjóðveg númer eitt og jafnframt mikilvægt hagsmunamál íbúa svæðisins, fyrirtækja og ferðafólks. Stefnt verði að því að fyrrnefndum framkvæmdum verði lokið á árinu 2008.”