14/09/2024

Ása Ketilsdóttir á afmælishátíð Kvæðamannafélagsins Iðunnar

Ása og fjölskyldaKvæðamannafélagið Iðunn heldur um þessar mundir upp á 80 ára afmæli sitt og verður sjálf afmælishátíðin verður haldin helgina 19. og 20. september í Gerðubergi í Reykjavík. Dagskráin er með glæsilegasta móti og stendur yfir frá kl. 14.00-17.00 báða dagana. Haldnir verða fimm tónleikar með rímnakveðskap og hljóðfæraslætti, kvæðafólk og skáld fjalla um kveðskaparhefðina, sýning verður á munum úr eigu Iðunnar í hliðarsal og tekið á móti upptökum af rímnasöng sem fólk lumar á í heimahúsum. Tónleikar eru á heila tímanum, umræður á hálfa tímanum og þess á milli troða kvæðamenn upp á kaffistofu. Gestir geta komið og farið á milli atriða. Aðgangur er ókeypis.

Dagskráin á laugardeginum 19. september hefst með Hrafnagaldri. Flytjendur eru Steindór Andersen, félagar í Sigur Rós, Páll á Húsafelli og Hilmar Örn Hilmarsson. Steindór og Sigur Rósar-félagar ræða síðan við áheyrendur um samstarf sitt á erlendri grundu. Kvæðamenn úr Iðunni kveða úr Disneyrímum eftir Þórarin Eldjárn og að því búnu mun skáldið segja frá glímu sinni við bragarhætti og kenningar meðan á smíðinni stóð. Þá kveður Þórarinn Hjartarson frá Tjörn í Svarfaðardal vísur eftir Sigurð Breiðfjörð og Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur segir frá gagnrýni Jónasar Hallgrímssonar á rímnakveðskapnum, ekki síst á rímum Sigurðar Breiðfjörð. Dagskrá laugardagsins lýkur með veglegri afmælisveislu undir lúðrablæstri.

Sunnudaginn 20. september segir Ása Ketilsdóttir á Laugalandi við Djúp frá uppvaxtarárum sínum á Ytra-Fjalli í Aðaldal. Hún kann fjölmargar vísur og ógrynni af barnagælum og þulum sem hún kveður fyrir áheyrendur. Að því búnu stíga hagyrðingar úr Iðunni á stokk og takast á um dægurmál og dýpstu rök tilverunnar á spaugsaman hátt. Að lokum verða haldnir tónleikar þar sem fram koma afburða tónlistarmenn á sviði þjóðlagatónlistar: Spilmenn Ríkínís og Voces Thules.

Aðgangur er eins og áður segir ókeypis og öllum opinn meðan húsrúm leyfir. Sjá nánar á heimasíðu Gerðubergs: www.gerduberg.is.