Sveitarstjórn Strandabyggðar tók á fundi í gær fyrir erindi íbúa í Reykhólahreppi til Vegagerðar og samgönguráðherra um heiti nýs vegar um Arnkötludal og Gautsdal. Leggja íbúarnir eindregið til að sú leið verði nefnd Arnkötludalur, en ekki Tröllatunguvegur eins og Vegagerðin virtist um tíma hafa bitið í sig. Sveitarstjórn Strandabyggðar lýsti sig sammála íbúum Reykhólahrepps í málinu og var sveitarstjóra falið að senda erindi þar um til Vegagerðar og samgönguráðherra. Ennfremur kom fram að sveitarstjórn vill ekki láta breyta vegnúmerinu á Djúpvegi suður Strandir.