26/04/2024

Árni Páll sýnir í Gallerý Klúku

Fréttatilkynning
Nýr sýningarsalur, GALLERÝ KLÚKA, á Hótel Laugarhóli, Bjarnarfirði, Ströndum, verður tekinn í notkun á laugardaginn kemur, þann 12. júlí 2010. Heiti opnunarsýningarinnar er STORMUR Á SUÐURLANDI og það er Árni Páll Jóhannsson, hönnuður og myndlistarmaður, sem sýnir verk frá árinu 2009. Árni Páll Jóhannsson er löngu landsþekktur fyrir leikmynda- og sýningahönnun. Hann hefur hannað tugi leikmynda fyrir leikhús og kvikmyndir, unnið með fjölda landskunnra sem og heimsþekktra leikstjóra, hannað íslensku skálana á heimsýningunum í Lissabon og Hannover, auk fjölmargra vel þekktra sýninga í söfnum og setrum hringinn í kringum landið.

Árni hefur einnig stundað kennslu við virtar menntastofnanir hérlendis og erlendis og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Er þá skemmst að minnast heiðursverðlauna Eddunnar 2008 fyrir framlag hans til íslenskrar kvikmyndagerðar.

Árni Páll er fæddur í Stykkishólmi árið 1950. Hann lauk meistaranámi í ljósmyndun árið 1976. Hann kenndi í Myndlista- og Handíðaskólanum um 12 ára skeið. Árni Páll hélt sína fyrstu einkasýningu í Gallerý Súm árið 1976 en alls hefur hann haldið 7 einkasýningar og tekið þátt í 11 samsýningum, síðast á samsýningu í Witte de Witt í Rotterdam árið 1997.  Árni Páll er einn af stofnfélögum Nýlistasafnsins.

Það er langt um liðið síðan Árni Páll Jóhannsson hefur haldið sýningu hér á landi og því mikill heiður fyrir hið unga Gallerý Klúku á Hótel Laugarhóli að fá slíkan listamann til liðs við sig.

Sýningin er sölusýning og opin alla daga frá og með næstkomandi sunnudegi 13. júní frá kl. 10:00 til kl. 22:00 fram eftir sumri.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.