22/12/2024

Ár kartöflunnar framundan

Árið 2008 verður ár kartöflunnar samkvæmt yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, en þær velja á hverju ári einhvern málstað til að vekja umræðu um og athygli á. Ár kartöflunnar er haldið til að vekja athygli á mikilvægi kartaflna í mataræði og mataröryggi. Svo skemmtilega vill til að á ári kartöflunnar verða nákvæmlega 250 ár liðin frá því Friedrich Wilhelm Hastfer ræktaði fyrstu kartöflurnar á Íslandi, á Bessastöðum sumarið 1758.

Friedrich Wilhelm Hastfer (1722-1768) var sænskur barón af þýskum ættum. Hann var einnig þekktur undir nafninu Hastfer barón eða hrútabarón á Íslandi. 1752 gaf hann út ritgerðina „Utförlig och omständelig underrättelse om fullgoda fårs ans och skötsel“ sem hann tileinkaði sænska frumkvöðlinum á sviði kynbóta í sauðfé, Jonas Alströmer.

Hastfer var sendur til Íslands 1756 á vegum danska kóngsins Friðrik V og með honum í för var fjárhirðirinn Jonas Botsach sem verið hafði fjárhirðir hjá Alströmer. Þeir áttu þátt í upphafi kartöfluræktar á Íslandi á Bessastöðum 1758 og kynbótatilraun með sauðfé á búi Skúla Magnússonar í Elliðaárdal. Til þeirra tilrauna má rekja upphaf fjárkláðans fyrri. Líklegt er að kynbótahrútarnir sem þeir fluttu inn frá Englandi hafi verið Merinofé líkt og Alströmer hafði notað með miklum árangri til kynbóta í Svíþjóð.

Nýverið voru stofnuð Hollvinasamtök Hastfers hrútabaróns og hyggjast þau standa að ýmsum verkefnum með það að markmiði að rétta hlut hans í Íslandssögunni. Nokkrir Strandamenn eru virkir í þeim samtökum. Meðal annars vilja Hollvinasamtök Hastfers leiðrétta þann þráláta misskilning að séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal hafi fyrstur manna ræktað kartöflur hér á landi, en hann tók fyrst upp úr kartöflugarðinum tveimur árum á eftir Hastfer.