Nú er ár í að vegurinn um Arnkötludal verði opnaður fyrir almennri umferð, en samkvæmt útboðsgögnum á útlögn á neðra burðarlagi að vera lokið 1. des. 2008 og frágangur þannig að hægt verði að heimila umferð um veginn þann vetur. Í Svæðisútvarpi Vestfjarða í byrjun nóvember var umfjöllun um framkvæmdina og viðtal við Ingileif Jónsson verktaka. Þá var búið að leggja veginn í grófum dráttum um það bil 12 km af leiðinni eða um það bil helming og þar af tæpa 3 km ofan í Arnkötludal. Ingileifur gerði ráð fyrir að áætlunir stæðust og hægt yrði að aka veginn í desember á næsta ári, en hann verði þó ekki tilbúinn með bundnu slitlagi fyrr en sennilega í lok júlí 2009 en samkvæmt útboðsgögnum á verki að ljúka 1. september 2009.